Innanríkisráðherrann hættir um áramót

Ryan Zinke, innanríkisráðherra Bandaríkjanna, lætur af störfum um áramót.
Ryan Zinke, innanríkisráðherra Bandaríkjanna, lætur af störfum um áramót. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi í dag frá því að innanríkisráðherra landsins muni bráðlega láta af störfum og bætist ráðherrann, Ryan Zinke, þar með í hóp fjölda ráðherra og hátt settra embættismanna í stjórn Trump sem hafa ýmist verið reknir eða hætt frá því Trump settist á forsetastól.

„Innanríkisráðherrann @RyanZinke mun yfirgefa ríkisstjórnina í lok árs eftir að hafa gegnt hlutverkinu í tæp tvö ár,“ tilkynnti Trump á Twitter í dag. Segir AFP-fréttastofan forsetann með þessu vera að leggja áherslu á að Zinke hafi gegnt starfinu mun lengur en ýmsir aðrir sem starfa hafa í stjórn hans.

„Ryan hefur komið miklu í verk í embættistíð sinni og ég vil þakka honum fyrir þjónustu sína við þjóð okkar,“ sagði Trump og bætti við að tilkynnt yrði í næstu viku hver taki við af Zinke.

Innanríkisráðherrann hefur umsjón með landvernd og landnýtingu, m.a með námagreftri á landi í eigu ríkisins. Að sögn AFP hefur Zinke komið við sögu í fjölda siðferðisrannsókna tengdum stjórninni og hafa þingmenn Demókrataflokksins ítrekað lagt fram kvartanir vegna hans.

„Ryan Zinke var með því hvernig hann annaðist umhverfið og okkar dýrmæta land einn eitraðasti liðsmaður ríkisstjórnarinnar,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeild þingsins og kvað Zinke hafa hagað sér eins eins og stjórnin væri hans eigin gullkista.

„Þessi fenjastjórn verður örlítið minna viðbjóðsleg án hans.“

Zinke átti, ásamt Scott Pruitt fyrrverandi forstjóra bandarísku umhverfisstofnunarinnar sem sagði af sér í júlí, þátt í að draga verulega á umhverfisreglugerðum og auka orkuframleiðslu.

Stutt er frá því tilkynnt var að annar hátt settur liðsmaður stjórnar Trumps mundi hætta um áramótin, er tilkynnt var að John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins hygðist láta af störfum.

Trump greindi frá því gær að við embætti starfsmannastjórans myndi taka Mick Mulvaney, sem í dag er yf­ir­maður fjár­sýslu banda­ríska rík­is­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert