Foreldrar árásarmannsins látnir lausir

Húsið þar sem talið er að Cherif Chekatt hafi falið …
Húsið þar sem talið er að Cherif Chekatt hafi falið sig. Foreldrar hans og bræður voru látin laus úr haldi lögreglu í dag. AFP

Foreldrar og tveir bræður  Cherif Chekatt, sem gerði árás á jólamarkað í Strassborg á þriðjudag, voru í dag látin laus úr haldi lögreglu. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir embætti saksóknara í París, en fjölskyldan var handtekin í tengslum við rannsókn lögreglu. Þrír til viðbótar, sem voru nánir Chekatt, eru hins vegar enn í haldi.

Chekatt, sem varð fjórum að bana og særði 12 til viðbótar í skotárás á markaðinn, féll fyrir skotum lögreglu í gær eftir umfangsmikla leit að honum dagana á undan

Rúmlega 700 lögreglumenn tóku þátt í leitinni, sem lögregla hefur rannsakað sem hryðjuverk.

Innanríkisráðherra Frakklands hefur hins vegar alfarið hafnað fullyrðingum vígasamtakanna Ríkis íslams um að þau beri ábyrgð á árásinni.

Segir AFP rannsókn lögreglu beinast að því hvort að hann hafi notið aðstoðar við árásina eða á flótta sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert