Viðurkennir V-Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur staðfest að ríkisstjórn landsins muni viðurkenna Vestur-Jerúsalem formlega sem höfuðborg Ísraels. 

Morrison segir aftur á móti að Ástralir muni ekki flytja sendiráð landsins frá Tel Aviv nema þegar friðarsamkomulag er í höfn á milli Ísraela og Palestínumanna. 

Ráðherrann sagði ennfremur, að hann viðurkenndi rétt Palestínumanna um að koma á fót eigin ríki með höfuðborg sína í Austur-Jerúsalem, að því er segir á vef BBC.

Staða borgarinnar hefur verið eitt helsta bitbein Ísraela og Palestínumanna í gegnum tíðina. 

Trump Bandaríkjaforseti var harðlega gagnrýndur í fyrra þegar hann viðurkenndi, þvert á áratugalanga hefð, að borgin væri höfuðborg Ísraela. Í framhaldinu var sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael flutt frá Tel Aviv til Jerúsalem, en það var gert í maí. 

Morrison lét ummælin falla eftir að hafa farið yfir málið með áströlskum stjórnmálamönnum og fulltrúum erlendra bandalagsríkja. 

„Ástralía viðurkennir nú að Vestur-Jerúsalem, þar sem Knesset [ísraelska þingsins] hefur aðsetur sem og margar ríkisstofnanir, sé höfuðborg Ísraels,“ sagði ástralski forsætisráðherrann í Sydney í dag. 

Hann sagði að stefnt yrði að því að flytja sendiráð landsins til Vestur-Jerúsalem. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert