Trump ætlar að skoða mál hermannsins

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að skoða mál Golsteyn að …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að skoða mál Golsteyn að beiðni margra. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að taka til skoðunar mál bandarísks sérsveitarmanns sem ákærður hefur verið fyrir morð, sem hann greindi frá er hann sótti um starf hjá banda­rísku leyniþjón­ust­unni (CIA). 

Hermaður­inn Matt­hew Gol­steyn, sem var hátt­sett­ur liðsfor­ingi og liðsmaður grænu alpa­húf­anna (e. green ber­et), er sagður hafa skotið af­gansk­an mann til bana þegar hann var stadd­ur í Af­gan­ist­an árið 2010. Gol­steyn sagði að hann hefði haldið að maður­inn væri sprengju­gerðarmaður úr röðum talib­ana. Hann hefur hins vegar lýst sig saklausan af morðákærunni.

Sagðist Trump á Twitter í dag ætla að skoða mál Golsteyn.

Golsteyn „gæti átt dauðarefsingu frá okkar eigin stjórnvöldum yfir höfði sér“, skrifaði forsetinn og kvaðst ætla að íhlutast um málið „að beiðni margra“.

BBC segir hins vegar óljóst hvað Trump hafi átt við með þessum orðum sínum. Afskipti forsetans, sem æðsta yfirmanns hersins, af málinu gætu hins vegar talist ólögleg og haft þannig í það í för með sér málaferlin gegn Golsteyn teldust ógild.

Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði í dag að ásakanirnar gegn Golsteyn séu „málefni lögreglunnar“ og að varnarmálaráðuneytið muni virða það ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert