Fundust látnar í Marokkó

Markaðstorg í borginni Marrakesh í Marokkó.
Markaðstorg í borginni Marrakesh í Marokkó. Ljósmynd/AFP

Marokkósk lögregla rannsakar nú voveiflegt dauðsfall tveggja kvenna sem fundust látnar á vinsælu útivistarsvæði í Atlas-fjallgarðinum sem teygir sig gegnum Marokkó, Alsír og Túnis í Norður-Afríku. Önnur kvennanna er Norðmaður en hin Dani og er andlát þeirra rannsakað sem sakamál þar sem fjöldi áverka eftir einhvers konar eggvopn fannst á líkunum. Marokkósk yfirvöld tilkynntu norska utanríkisráðuneytinu um málið í dag.

„Við erum önnum kafin við rannsókn málsins og vonumst til að hafa frekari vitneskju um það í kvöld,“ segir Ane Lunde, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, við norsku fréttastofuna NTB sem rekur læsta fréttaþjónustu en það er netmiðillinn Nordlys sem hefur ummælin eftir.

Norska dagblaðið VG greindi fyrst frá málinu í dag, af norskum fjölmiðlum, og hefur sínar fyrstu upplýsingar frá fréttastofu AFP. VG setti sig þegar í samband við lögregluyfirvöld í Marokkó sem segjast ekki vilja tjá sig á nokkurn hátt um andlát kvennanna eða tildrög þess að svo búnu. 

Aflýsa öllum gönguferðum

Norska ríkisútvarpið NRK hefur það eftir frönskuskrifandi marokkóskum fréttamiðli á netinu í dag að ringulreið ríki á svæðinu, sem er í El Haouz-héraðinu, skammt frá tindi fjallsins Toubak, og ferðaþjónustuaðilar hafi aflýst öllum skipulögðum gönguferðum með ferðamenn.

Ríkisútvarpið náði einnig sambandi við norska ferðaskrifstofu sem skipuleggur gönguferðir um Atlas-fjallgarðinn og sagði talsmaður hennar að fyrirtækið hefði annast leiðsagðar gönguferðir um fjöllin í áraraðir og aldrei litið á svæðið öðruvísi en fullkomlega öruggt.

Norska sjónvarpsstöðin TV2 greinir frá því að áverkarnir hafi verið á hálsi kvennanna látnu og hvor tveggju, utanríkisráðuneyti Noregs og Danmerkur, bíði nú frekari tíðinda af rannsókn marokkósku lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert