Þjálfari í fangelsi fyrir nauðgun

Ljósmynd/Wikipedia.org

Fyrrverandi landsliðsþjálfari Frakklands í listadansi á hjólaskautum, Arnaud Mercier, hefur verið dæmdur í þrettán ára fangelsi eftir að hann var sakfelldur fyrir að hafa beitt tvær unglingsstúlkur kynferðislegu ofbeldi og nauðgað þeim.

Fram kemur í frétt AFP að Mercier, sem er 42 ára gamall, hafi viðurkennt fyrir dómi að hafa beitt unglingsstúlkurnar kynferðisfofbeldi en neitað því að hafa nauðgað þeim. Áður hafði hann neitað öllum ásökunum. Ákæruvaldið fór fram á 20 ára fangelsisdóm yfir honum.

Málið gegn Mercier hófst 2011 þegar önnur stúlkan greindi frá því að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi af þjálfara sínum frá því að hún var átta ára gömul. Mercier var í kjölfarið vikið frá störfum tímabundið en síðan fyrir fullt og allt.

Hin stúlkan, sem hafði áður varið Mercier, greindi síðan frá því 2015 að hann hefði nauðgað sér daglega frá því að hún var 13 ára gömul. Nauðganirnar hafi verið refsing fyrir að hafa ekki viljað taka þátt í ákveðnum kynlífsathöfnum. 

Þá hafi Mercier skipulagt fundi þar sem stúlkan hefði hitt aðra karlmenn. 

Tveir aðrir íþróttamenn stigu einnig fram og báru vitni í málinu. Annar þeirra hélt því fram að Mercier hefði nauðgað stúlkunni í tvö ár þegar hún hafi verið á aldrinum 16-18 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert