Fær ekki milljarðana greidda

Leslie Moonves.
Leslie Moonves. AFP

Les Moonves, sem var yfirmaður bandaríska fjölmiðlafyrirtækisins CBS, mun ekki fá greiddan starfslokasamning en hann var rekinn frá störfum vegna ásakana um að hafa beitt fjölmargar konur kyn­ferðisof­beldi eða áreitt þær kynferðislega. Til stóð að hann fengi greiddar 120 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 14,8 milljarða króna, við starfslok. 

Moonves hafði gríðarleg áhrif á rekstur CBS og undir hans stjórn varð CBS vinsælasta sjónvarpsstöð Bandaríkjanna. Hann var einnig í hópi þeirra stjórnenda í Hollywood sem nutu mestrar virðingar - allt þar til hann var ásakaður opinberlega um kynferðislega áreitni.

Í tveimur greinum sem birtust í The New Yorker í júlí og september var fjallað ítarlega um ásakanir á hendur honum af tólf konum. Hann lét af störfum í september. Á þeim tíma tilkynnti CBS að Moonves og fyrirtækið myndu setja 20 milljónir Bandaríkjadala í stuðning við #MeToo-hreyfinguna og til að tryggja konum jafnrétti á vinnustaðnum.

Í tilkynningu frá CBS í gær kemur fram að rannsókn fyrirtækisins hafi leitt í ljós að Moonves hafi gerst sekur um rangfærslur og að hann hafi verið ósamvinnuþýður við rannsókn málsins. Lögmaður Moonves gagnrýnir þessa ákvörðun CBS harðlega og segir hana byggja á tilhæfulausum ásökunum í garð skjólstæðings hans. 

Á föstudag staðfesti CBS að fyrirtækið hefði greitt leikkonunni Elizu Dushku 9,5 milljónir Bandaríkjadala í bætur en hún var skrifuð út úr handriti sjónvarpsþáttaraðarinnar Bull í kjölfar þess að hafa kvartað undan áreitni af hálfu aðalleikarans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert