Hlébarði drap þriggja ára dreng

Indverskur hlébarði.
Indverskur hlébarði. AFP

Hlébarði drap þriggja ára gamlan dreng á Indlandi í gær og er þetta þriðja skiptið á tveimur mánuðum sem hlébarði drepur manneskju þar í landi. Þar af eru tvö börn.

Wasim Akram var inni í eldhúsi með móður sinni þegar hlébarðinn laumaðist inn, stökk á drenginn og hafði hann á brott með sér inn í skóg, að sögn yfirvalda. Lík drengsins fannst í morgun, höfuðlaust, og hefur því verið komið til foreldra drengsins, að sögn yfirvalda.

Hlébarði reif átta ára gamlan dreng á hol fyrr í mánuðinum og hafa starfsmenn þjóðgarða í Jammu og Kasmír, vopnaðir deyfilyfjabyssum, leitað dýrsins undanfarið. Þeir sáu til þess í morgun en náðu ekki að fanga það.

Þjóðgarðsyfirvöld hafa gefið út viðvörun og beðið fólk um að fara varlega. Þetta sé svæði villidýra og það séu menn sem komi inn á þeirra svæði, ekki öfugt. Þess vegna megi búast við atvikum sem þessum. Áætlað er að 12-14 þúsund hlébarðar séu á Indlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert