Krúnurakaðar gegn lögleysunni

Eiginkona kínversks lögfræðings, Wang Quanzhangm, sem er í haldi yfirvalda og þrjár konur til viðbótar létu skera hár sitt í gær til að mótmæla fangelsun eiginmanna sinna en lítið hefur verið upplýst um hvað þeir eiga að hafa brotið af sér.

Konurnar fjórar stóðu fyrir utan yfirrétt í suðurhluta Peking og segja mótmæli sín vera táknræn um lögleysuna í landinu. „Við getum krúnurakað okkur en landið getur ekki verið löglaust,“ segja þær en lögregla kom í veg fyrir að þær kæmust inn í dómshúsið.

Menn þeirra voru allir handteknir í aðgerðum gegn aðgerðasinnum og lögmönnum 9. júlí 2015. Wang Quanzhang, sem hefur varið pólitíska aðgerðasinna og fórnarlömb þess þegar land er tekið eignarnámi af ríkinu, hvarf í aðgerðunum gegn gagnrýnendum Kommúnistaflokksins. 

Hann var ákærður í janúar 2016 fyrir niðurrifsstarfsemi í garð ríkisins en hann er einn rúmlega 200 lögmanna og aðgerðasinna sem voru handteknir á þessum tíma. Enginn þeirra hefur verið dæmdur og eru þeir allir enn í haldi án dóms og laga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert