Kynlíf eða fall í áfanga

AFP

Nígerískur háskólaprófessor hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að krefja kvennemanda um kynlíf gegn hærri einkunn. Um tímamótadóm er að ræða hvað varðar kynferðislega áreitni og ofbeldi við háskóla landsins.

Richard Akindele, prófessor við Obafemi Awolowo háskólann í Ile-Ife var í gær fundinn sekur um spillingu í starfi og kynferðislega áreitni. Lögmenn hans reyndu að gera dómssátt í málinu 19. nóvember en dómarinn hafnaði beiðninni.  

Að sögn dómarans var málefnið allt of mikilvægt til þess að hægt væri að semja um það. Stjórnlaust ástand hjá stofnunum. „Við sendum börnin í skóla og þau koma heim og segja okkur að kennarinn vilji sofa hjá þeim,“ sagði dómarinn og var Akindele fundinn sekur um alla liði ákærunnar.

Sagði dómarinn að þetta geti ekki gengið svona lengur og það verði einhver að gefa fordæmi. Þetta sé svona í öllum skólum, jafnvel grunnskólum. Löngu tímabært sé að dómstólar virði rétt barna, sérstaklega kvennemenda. 

Málið kom upp í apríl þegar nemandinn kom til yfirvalda með upptöku þar sem reikningsskilakennarinn heyrist krefja hana um kynlíf. Ef hún hafni honum þá muni hann fella hana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert