Þarf að horfa á Bamba mánaðarlega

Bambi.
Bambi. Af Wikipedia

Dómari í Missouri-ríki í Bandaríkjunum leitar aðstoðar hjá Walt Disney til að sjá til þess að karlmaður, David Berry Jr., veiði aldrei aftur ólöglega. Berry var dæmdur í eins árs fangelsi fyrir ólöglegar veiðar.

Hann var dæmdur fyrir að drepa dádýr ólöglega en hann tók eingöngu höfuðið og hornin af dýrum og skildi búkinn eftir til að rotna. Á meðan fangavistinni stendur þarf Berry að horfa á kvikmyndina „Bambi“ einu sinni á mánuði.

Í kvikmyndinni, sem er frá árinu 1942, er móðir Bamba skotin til bana af veiðimönnum.

Fram kemur í dómsorði að Berry, og fleiri úr fjölskyldu hans, hafi lengi stundað ólöglegar veiðar og veiðarnar sem hann sé dæmdur fyrir séu „toppurinn á ísjakanum“.

Berry var handtekinn í lok ágúst 2016 ásamt tveimur ættingjum sínum eftir tæplega níu mánaða rannsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert