Vantrauststillaga á bresku stjórnina

Breska þinghúsið í London.
Breska þinghúsið í London. AFP

Fjórir stjórnarandstöðuflokkar sem sæti eiga í neðri deild breska þingsins hafa lagt fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins.

Flokkarnir eru Skoski þjóðarflokkurinn, Frjálslyndir demókratar, velski flokkurinn Plaid Cymru og Græningjar. Haft er eftir leiðtoga Skoska þjóðarflokksins í neðri deildinni, Ian Blackford, að ákveðið hafi verið að leggja fram tillöguna þar sem Verkamannaflokkurinn hafi guggnað á því.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lagði fram vantrauststillögu á May fyrr í gær en hún var höfð að engu af ríkisstjórninni. Corbyn hótaði því að ef sú yrði raunin myndi hann leggja fram vantrauststillögu á alla ríkisstjórnina en virðist hafa fallið frá því.

Verði vantrauststillagan samþykkt verður að boða til nýrra þingkosninga í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert