„Yfirgengilegt mynstur lögleysu“ hjá Trump Foundation

Trump hefur fallist á að loka góðgerðarstofnun sinni, Trump Foundation, …
Trump hefur fallist á að loka góðgerðarstofnun sinni, Trump Foundation, vegna málareksturs ríkissaksóknara í New York-ríki á hendur stofnunni og stjórnendum hennar. Á myndinni sést forsetinn með góðgerðastyrk frá stofnunni í kosningabaráttunni 2016. AFP

Góðgerðastofnun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, the Donald J. Trump Foundation, mun hætta starfsemi og verða leyst upp í umsjá dómstóla, í kjölfar þess að dómstóll í New York-ríki ákvað að heimila lögsókn ríkissaksóknaraembættisins í ríkinu á hendur stofnuninni. Stofnunin hefur undirritað samkomulag við ríkissaksóknara hvað þetta varðar, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá ríkissaksóknaraembættinu.

Ríkissaksóknarinn, Barbara Underwood, hefur sakað Trump og þrjú elstu börn hans um að nota góðgerðastofnunina til eigin hagsbóta. Í lögsókninni fer saksóknarinn fram á að þau greiði milljónir Bandaríkjadala aftur til stofnunarinnar eða í sektir, auk þess sem Trump og börnum hans verði meinað að sitja í stjórnum góðgerðarfélaga í New York-ríki.

Haft er eftir Underwood í fréttatilkynningu að við rannsókn á stofnuninni, sem staðið hefur yfir frá því árið 2016 þegar Trump var enn bara forsetaframbjóðandi, hefði komið í ljós „yfirgengilegt mynstur lögleysu,“ sem meðal annars fæli í sér ólögmæt tengsl góðgerðastofnunarinnar við forsetaframboð Trumps, auk endurtekinnar sjálftöku.

Segir saksóknarinn að þessi lögleysa hafi leitt til þess að Trump Foundation hafi í raun verkað sem lítið annað en „tékkhefti“ sem hafi þjónað viðskipta- og stjórnmálahagsmunum Bandaríkjaforseta.

Málarekstur New York-ríkis gegn stofnun forsetans mun halda áfram og Underwood segir að stjórnendur stofnunarinnar og aðrir sem ábyrgir séu fyrir „augljósum og endurteknum“ brotum á ríkis- og alríkislögum verði dregnir til ábyrgðar.

Trump og börn hans þrjú hafa ekki enn brugðist við þessum tíðindum opinberlega, en BBC rifjar upp tíst forsetans frá því í júní síðastliðnum, þar sem hann sagði „sóðalegu Demókratana í New York“ vera að gera allt sem þeir gætu til þess að lögsækja sig vegna málsins og hrakyrti Eric Schneiderman fyrrverandi ríkissaksóknara, sem hóf rannsókn málsins árið 2016.

Frétt BBC

Frétt New York Times

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert