Gleymdi skilríkjum á vettvangi

Þrír menn eru í haldi marokkósku lögreglunnar grunaðir um aðild að morði á tveimur ungum skandinavískum konum. Einn þeirra hafði gleymt skilríkjum sínum á vettvangi morðsins en konurnar fundust látnar í tjaldi sínu í Atlasfjöllunum á mánudagsmorgun. Þremenningarnir sjást jafnframt á myndum úr öryggismyndavélum í ferðamannabænum Imlil en konurnar gistu í smábæ þar rétt hjá. 

Norska ríkisútvarpið greinir frá þessu og vísar í fréttir ríkissjónvarpsstöðvarinnar 2M í Marokkó. 

Konurnar, Maren Ueland og Louisa Vesterager Jespersen, voru saman á bakpokaferðalagi í Marokkó og ætluðu að vera þar um jólin. Ueland, sem er norsk og 28 ára gömul, og Jespersein, sem er dönsk og 24 ára gömul, voru saman í námi við Sørøst-Norge- háskólann í Bø í Þelamörk.

Norskur ævintýramaður, Marius Fuglestad lýsir því í samtali við Dagbladet í gær að hann hafi  ferðast með Ueland um Ísland síðasta sumar. Þau hafi kynnst á síðasta ári og hún hafi sýnt mikinn áhuga á ferðalögum hans til Alaska. Hann spurði hana hvort hún væri til í að fara með honum til Íslands og hún hafi látið slag standa.

Ueland gat hins vegar ekki lokið ferðalagi þeirra þvert yfir Ísland þar sem hún meiddist á hæl og varð því að hætta ferðalaginu eftir fimm daga.

Í Dagblaet lýsir Fuglestad því hvað öryggismál hafi skipt hana miklu og því sé það mikið áfall að frétta af afdrifum hennar. Þau hafi ekki verið í sambandi síðan á Íslandi og hann sé algjörlega miður sín vegna frétta af morðinu.

NRK hefur fengið það staðfest hjá yfirvöldum í Marokkó að skilríki mannsins hafi fundist á vettvangi auk þess sem fatnaður og matur sem þremenningarnir áttu fundust á vettvangi. 

Greint hefur verið frá því að konurnar tvær voru með áverka á hálsi eftir eggvopn. Einhverjir fjölmiðlar hafa greint frá því að þær hafi verið skornar á háls. 

Marokkóskir fjölmiðlar greina frá því að þremenningarnir hafi verið í tjaldi á sama tjaldsvæði og konurnar skammt frá hæsta fjalli Norður-Afríku, Toubkal. Mennirnir hafi yfirgefið svæðið um þrjúleytið aðfararnótt mánudags en lík kvennanna fundust morguninn eftir.

Móðir Louisu Vesterager Jespersens segir í samtali við B.T. að hún hafi beðið dóttur sína um fara ekki til Marokkó vegna ástandsins í landinu og hefur danska utanríkisráðuneytið breytt ráðleggingum sínum varðandi ferðalög þangað í kjölfar morðanna. Eru danskir ferðamenn nú varaðir við því að fara á eigin vegum um fjalllendi Marokkó. Norska utanríkisráðuneytið hefur hins vegar ekki breytt ráðleggingum sínum varðandi Marokkó og segir ferðalög þangað hættulaus.

Það voru ferðamenn á svæðinu sem fundu lík kvennanna og er greint frá því á vefnum MWN að innlendur fararstjóri hafi gengið fram á grátandi ferðamenn sem greindu honum frá því að hafa fundið lík þeirra. Það var fararstjórinn sem hafði samband við lögreglu. Útilokað hefur verið að tilgangur morðanna hafi verið að ræna konurnar þar sem engu hafði verið stolið frá þeim.  

Norskur lögreglumaður sem starfar í sendiráði Noregs í höfuðborginni er kominn til Marrakesh þar sem rannsókn málsins fer fram og er hann tengiliður milli norsku og marokkósku lögreglunnar. Eins er sendiherra Noregs í Marokkó á staðnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert