Sagður hafa kallað May heimska konu

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, í breska þinginu í dag.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, í breska þinginu í dag. AFP

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur verið harðlega gagnrýndur í dag í kjölfar þess að hann virtist muldra úr sæti sínu í breska þinginu: „Heimska kona,“ á meðan Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, flutti ræðu í þingsalnum.

Fram kemur í frétt AFP að May hafi verið að gagnrýna Corbyn fyrir að hafa guggnað á hótun sinni um að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn hennar, vegna þess hvernig hún hefði haldið á málum varðandi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þegar meint orð hans féllu. Þingmenn úr röðum Íhaldsflokks forsætisráðherrans hrópuðu að orð Corbyns væru skammarleg og May sagði sagði ummælin ósæmileg í þinginu.

Forseti þingsins, John Bercow, sagðist ekki hafa heyrt ummælin sjálfur en ef rétt væri eftir Corbyn haft væri ljóst að hann þyrfti að biðjast afsökunar á þeim í þinginu. Bercow, sem hefur sjálfur verið gagnrýndur fyrir ósæmileg ummæli í garð þingmanna, sagði ennfremur að hann myndi skoða myndbandsupptökur og fá faglega aðstoð við að kanna málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert