Samskipti ESB hökkuð

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. AFP

Tölvuhakkarar fundu leið inn í tölvusamskipti embættismanna hjá Evrópusambandinu og komust yfir þúsundir skilaboða þeirra. Um er að ræða samskipti á löngu tímabili og ná þau yfir skilaboð um allt á milli himins og jarðar, allt frá Bandaríkjaforseta til heimsviðskipta. Þetta kemur fram í New York Times. 

Öryggisrofið kom nýlega í ljós og var það netöryggisfyrirtækið Area 1 sem það gerði. Stjórnendur hjá ESB segja að upplýsingar sem voru merktar sem trúnaðarmál hafi ekki lekið út og engin leyndarmál hafi náð til hakkaranna á þessum þremur árum sem þeir hafa leikið lausum hala í tölvukerfi ESB.

Einn sérfræðingur sem NYT ræðir við um málið segir aðferðina sem hakkararnir nota vera svipaða og þá sem kínverski herinn hefur notað í slíkum tölvuinnbrotum. Hann segir engan vafa leika á því að kínverska ríkisstjórnin eigi aðild að þessu. 

Meðal skilaboða, sem ganga undir heitinu diplomatic cables - eða skilaboð sem diplómatar senda sín á milli, eru viðræður þeirra um fund Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, og starfsbróður hans í Rússlandi, Vladimírs Pútín, í Helsinki í júlí. Þar kemur fram að þeir telji að fundurinn hafi verið árangursríkur fyrir Pútín. 

Í öðrum samskiptum, sem eru skrifuð eftir fundinn 16. júlí, er fjallað um skýrslu um viðræður milli evrópskra embættismanna og forseta Kína, Xi Jinping, sem líkir einelti Trumps í garð Kína við hnefaleikakeppni. 

Nánar á vef NYT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert