Drengur féll niður í borholu

Ljósmynd/Wikipedia.org

Björgunarsveitarmenn á Spáni hafa unnið að því hörðum höndum að reyna að bjarga tveggja ára gömlum dreng sem féll niður um þrönga 100 metra djúpa borholu á sunnudaginn skammt frá borginni Málaga í suðurhluta landsins.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að björgunarstörf hafi staðið yfir dag og nótt síðan slysið átti sér stað. Meðal annars hefur verið reynt að nota öfluga ryksugu til þess að fjarlægja jarðveg og leðju úr holunni. Byrjað hafi verið á þeirri vinnu í gærkvöldi.

Ekki hafa komið fram vísbendingar enn um að drengurinn sé á lífi en munir í hans eigu hafa hins vegar fundist. Rúmlega eitt hundrað slökkviliðsmenn, lögreglumenn og aðrir sérfræðingar eru á staðnum. Foreldrar drengsins hafa fengið áfallahjálp vegna málsins en þeir misstu annan son fyrir minna en tveimur árum í slysi.

Hafist hefur verið handa við að grafa göng niður í jarðveginn og er vonast til þess að þannig megi nálgast drenginn og bjarga honum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert