Gillette tekur á eitraðri karlmennsku

Gillette vonast til að þeir karlar sem horfi á auglýsinguna …
Gillette vonast til að þeir karlar sem horfi á auglýsinguna finni þar hvatningu til að vera góð fyrirmynd og sýna með því börnum hvernig þau eigi að hafna slæmri hegðun og koma fram við fólk af virðingu. Skjáskot/YouTube

Nýjasta auglýsing Gillette fjallar hvorki um rakstur né skeggvöxt. Auglýsingin sem nefnist „We believe“ eða Við trúum, er þess í stað innlegg fyrirtækisins í #metoo-byltinguna.

Auglýsingin, sem er tæpar tvær mínútur að lengd, var birt á samfélagsmiðlum í vikunni og tekur á málefnum á borð við eitraða karlrembu og kynferðisáreitni. Samhliða varpar Gillette fram spurningunni „Eru þetta karlmenn upp á sitt besta?“ en slagorð fyrirtækisins hefur lengi verið „The best a man can get“.



 

CNN segir viðbrögð við auglýsingunni hafa verið blendin og sum hver ansi ofsafengin. Á meðan sumir lofi fyrirtækið fyrir uppátækið hafi aðrir heitið því að sniðganga vörur þess.

„Við gerðum ráð fyrir rökræðum og samræður eru nauðsynlegar. Ef við ræðum þetta ekki þá held ég ekki að nein raunveruleg breyting muni eiga sér stað,“ sagði Pankaj Bhalla, yfirmaður Gillette í Norður-Ameríku, við CNN.

Sjálfur vonast hann hins vegar til þess að þeir karlar sem horfi á auglýsinguna finni þar hvatningu til að vera góð fyrirmynd og sýna með því börnum hvernig þau eigi að hafna slæmri hegðun og koma fram við fólk af virðingu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stórfyrirtækið Procter & Gamble, sem á Gillette, lætur framleiða framsækna auglýsingu. Þannig sýndi til að mynda ein auglýsing fyrirtækisins fyrir Pantene-hárvörur leikmenn í meistaradeild bandaríska fótboltans flétta hár dætra sinna.

„Við getum ekki falið okkur fyrir þessu. Þetta hefur átt sér stað of lengi. Við getum ekki hrist þetta af okkur með hlátri og komið með sömu gömlu afsakanirnar,“ segir í auglýsingunni nú.

Gillette segir að talað hafi verið við menn víða um land, könnun hafi verið gerð og rætt við sérfræðinga um karlmennsku við gerð auglýsingarinnar.

Fjölmargir notendur samfélagsmiðla hafa lýst yfir reiði vegna auglýsingarinnar. Sögðu sumir hana vera móðgandi, en aðrir sögðu hana vera „femínískan áróður“. Þeir sem eru á öndverðum meiði hafa hins vegar sagt viðbrögðin við auglýsingunni sýna hvers vegna hún hafi verið nauðsynleg til að byrja með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert