Forsetinn fékk 100 milljónir dala í mútur

AFP

Mexíkóski fíkniefnabaróninn Joaquín „El Chapo“ Guzmán greiddi fyrrverandi forseta Mexíkó, Enrique Peña Nieto, 100 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 12 milljarða íslenskra króna, í mútur að sögn náins samstarfsmanns El Chapo.

Alex Cifuentes, sem segist hafa verið náinn samstarfsmaður Guzmán árum saman, bar vitni um þetta í réttarsal í New York í gær. Hann segist hafa greint yfirvöldum frá mútugreiðslunum árið 2016. 

Guzmán er ákærður fyrir að hafa verið höfuðpaur Sinaloa-fíkniefnasamtakanna sem saksóknarar segja vera stærsta innflytjenda fíkniefna til Bandaríkjanna. Peña Nieto var forseti Mexíkó 2012 til 2018.

Réttarhöldin yfir Guzmán hófust í Brooklyn í nóvember eftir að hann var framseldur frá Mexíkó. Hann er ákærður fyrir smygl á kókaíni, heróíni og öðrum fíkniefnum sem foringi Sinaloa-samtakanna.

Í frétt BBC á Peña Nieto að hafa farið fram á að fá greiddar 250 milljónir dala áður en hann féllst á 100 milljónir dala. Cifuentes segir að féð hafi verið afhent í Mexíkóborg í október 2012 og vinur El Chapo hafi annast það.

Cifuentes, sem er kólumbískur eiturlyfjabarón, segist hafa verið hægri hönd El Chapo um árabil. Hann hafi verið ritari hans og eytt með honum tveimur árum í felum í fjöllum Mexíkó til að komast undan réttvísinni. Hann var handtekinn í Mexíkó árið 2013 og var síðar framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann játaði sök í fíkniefnasmyglmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert