Frakkar búa sig undir Brexit án samnings

Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands.
Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands. AFP

Frönsk stjórnvöld hafa virkjað áætlanir sínar um viðbrögð við því ef Bretland yfirgefur Evrópusambandið 29. mars án þess að fyrir liggi sérstakur útgöngusamningur við sambandið. Þetta kemur fram í frétt AFP um málið.

Haft er eftir Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, að möguleikinn á að Bretar yfirgefi Evrópusambandið án þess að fyrir liggi útgöngusamningur verði sífellt líklegri. Ráðherrann sagði fjölmiðlum þetta eftir ríkisstjórnarfund í dag, sem boðað var til í kjölfar þess að meirihluti neðri deildar breska þingsins hafnaði í fyrradag útgöngusamningi sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, samdi um við sambandið.

Philippe sagði að hann hefði ákveðið að virkja áætlanirnar í kjölfar fundarins en þær snúast meðal annars um að veita háum fjárhæðum til þess að fjárfesta í innviðum franskra flugvalla og hafna sem tengjast vöru- og farþegaflutningum til Bretlands.

Meðal annars stendur til að skipuleggja stór bílastæði við ákveðnar hafnir fyrir bifreiðar sem bíða eftir tollskoðun og fjárfesta í innviðum svo hægt verði að framkvæma tollskoðun. Enn fremur stendur til að ráða 580 nýja tollverði og matvælaeftirlitsmenn.

AFP

Reiknað er með að franska þingið samþykki í dag lagafrumvarp sem heimili ríkisstjórninni að gefa út fimm tilskipanir vegna undirbúnings fyrir hugsanlega útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings til þess að lágmarka mögulegt uppnám.

Tilskipanirnar snúast um réttindi breskra ríkisborgara í Frakklandi, aðgerðir til þess að tryggja að tollskoðun geti gengið vel fyrir sig, vöruflutninga frá Bretlandi, hagsmuni fjármálastofnana og flutning á varnarbúnaði frá Bretlandi.

Ríkisstjórnin mun þannig geta heimilað breskum ríkisborgurum sem búa í Frakklandi að búa áfram í landinu í ár en eftir það þurfi þeir að sækja um dvalarleyfi að því gefnu að bresk stjórnvöld veiti frönskum ríkisborgurum í Bretlandi sömu réttindi.

Breskum flutningabílum verður heimilað að flytja áfram vörur til Frakklands og tryggt verður að samgöngur um Ermarsundsgöngin virki sem skyldi. Þá verði tryggt að fjármálaviðskipti á milli Bretlands og Frakklands geti farið fram eins og áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert