Krókódíll reif konu í sig

Kona á fimmtugsaldri, sem féll inn á svæði krókódíla á indónesísku eyjunni Sulawesi, fannst látin í síðustu viku en krókódíllinn, sem var gæludýr á perlubúgarði, reif konuna í sig. 

Deasy Tuwo, sem stýrði rannsóknarstofu perlubúgarðsins í Minahasa, var drepin af krókódílnum fyrir viku. Lík hennar fannst morguninn eftir og er talið fullvíst að hún hafi dottið inn á krókódílasvæðið.

Krókódíllinn var svæfður og fluttur af búgarðinum en honum var haldið þar með ólöglegum hætti. Tugir manna tóku þátt í að koma skepnunni á brott, þar á meðal hermenn og lögregla. Hann verður fluttur fljótlega á dýraverndunarsvæði en ekki kemur fram í fréttum hvar það er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert