Tóbakssmygl í tonnavís

Ökumaður þessarar bifreiðar ákvað að freista þess að reyna að …
Ökumaður þessarar bifreiðar ákvað að freista þess að reyna að lauma 170.000 sígarettum yfir landamærin í október. Birgðir hans bliknuðu þó við hlið vörubifreiðarstjóra sem hugðist aka rakleiðis gegnum grænt hlið með fimm milljónir sígarettna en sá átti stærsta tóbaksmál ársins. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Smyglað tóbak flæðir yfir Noreg sem aldrei fyrr ef marka má tölfræði norsku tollgæslunnar sem lagði hald á 12.908.555 sígarettur á landamærum árið 2018, sem er aukning frá 6.638.514 frá árinu áður, nánast tvöföldun. 

Munntóbak, eða snus, er sígildur smyglvarningur sem Norðmenn eru margir hverjir sólgnir í og freistingin töluverð þar sem verðmunur í þessum vöruflokki nemur um það bil helmingi sé ekið yfir til Svíþjóðar og varningurinn keyptur, til dæmis í verslununum við Svínasund, þangað sem aðeins er 120 kílómetra akstur frá Ósló. 

Tóbaksframboðinu eru lítil takmörk sett í sænsku landamærabúðunum svo sem nöfn á borð við Tobaccoland, Tobakshyttan og Tobaksvagnen bera glöggt vitni og ekki er langt að aka frá Svínasundi til Strömstad þar sem næsta áfengisútsala Svíþjóðarmegin er, flest á hálfvirði miðað við Noreg, en ekki er síður vinsælt að taka ferjuna frá Strömstad yfir til Sandefjord í Noregi og fylla bílinn af munntóbaki úr fríhafnarverslunum um borð svo sem sjá má af myndinni hér fyrir neðan en hún sýnir bíl þriggja ungra manna sem ætluðu sér ekki að verða af tóbaki dottnir.

Þrír ungir menn sem tóku ferjuna frá Strömstad í Svíþjóð …
Þrír ungir menn sem tóku ferjuna frá Strömstad í Svíþjóð yfir til Sandefjord í Noregi gerðu mikil munntóbaksinnkaup um borð en höfðu hvorki nautn af né sölugróða þar sem varningurinn endaði í haldlagningargeymslu tollgæslunnar. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Sá böggull fylgir þó skammrifi að tollheimildin á norsku landamærunum er sú sama og á flugvöllunum, 200 sígarettur eða 250 grömm af öðru tóbaki, og verður mörgum hált á að halda sig innan þeirra marka, en sá sem stórtækastur var árið 2018 reyndist luma á fimm milljónum sígarettna í vörubifreið sem hann ók gegnum grænt hlið tollsins í Svínasundi, magni sem hefði kostað 80 milljónir norskra króna út úr búð í Noregi, rúman 1,1 milljarð íslenskra króna.

Minna brennivín, meira kókaín

Dag Jørstad í tolleftirlitsdeild norsku tollgæslunnar segir hins vegar í samtali við mbl.is í dag að áfengismagn sem tollgæslan tekur traustataki á landamærum hafi snarminnkað milli áranna 2017 og '18. „Málafjöldinn er reyndar nokkurn veginn sá sami milli áranna, en magnið er töluvert minna,“ segir Jørstad og vísar í glænýja tölfræði tollgæslunnar fyrir smyglvarning ársins 2018.

Hann bendir þar á að sterkt áfengi, sem tollgæsla hafi tekið í fyrra, nemi 50.899 lítrum samanborið við 72.098 lítra árið 2017 og klófestur bjór hafi hrunið úr 575.113 lítrum í 315.864. Jørstad vill lítið ræða strauma og stefnur í smyglaðferðum en bendir ábúðarfullur á ársskýrslu tollgæslunnar sem kemur út í mars þar sem farið verði ofan í saumana á aðferðafræði smyglara.

Allrar athygli er vert að rýna í samanburðartölfræði tollgæslunnar fyrir tvö síðustu ár og ganga sveiflurnar þar upp sem niður. Léttvínstölur virðast í frjálsu falli, fara úr 60.540 lítrum í 33.186 milli áranna, kannabisefni úr einu og hálfu tonni 2017 í tæp 350 kílógrömm í fyrra, heróín úr 26,3 í 25,9 kg, nánast sama magn en málafjöldi gjörólíkur, 59 mál 2017 á móti 34 í fyrra. Fundið kókaín rýkur upp, 37,5 kg í 57,9 en þegar litið er til smygls á lyfjum („læknadópi“ og sterum) fer fjöldi eininga (sem eru sprautuglös, grömm, hylki og töflur) úr 127.152 í 154.725.

Að lokum má nefna ólögmætan flutning reiðufjár yfir landamæri, en skylt er að gera grein fyrir hærri upphæðum en sem nemur 25.000 norskum krónum (353.425 íslenskum). Reiðufjáreigendur á ferðalagi reyndu árið 2017 að lauma alls 40,1 milljón norskra króna (tæpum 567 milljónum íslenskra) yfir landamærin en sú upphæð dróst saman í 33 milljónir (466,5 milljónir íslenskar) í fyrra.

Tölfræði norsku tollgæslunnar yfir varning sem gerður var upptækur á landamærum í fyrra miðað við tölur frá 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert