Grunaður um morð á skiptinema

AFP

Ástralska lögreglan handtók í dag tvítugan mann í tengslum við rannsókn á morði á ungri ísraelskri konu þar í landi í vikunni. Lík Aiia Maasarwe fannst fyrir tveimur dögum en hún var myrt á leið heim af skemmtun í Melbourne.

Aiia Maasarwe var 21 árs skiptinemi og var á leið heim á stúdentagarðana skömmu eftir miðnætti þegar ráðist var á hana og hún myrt á hrottalegan hátt. Lík hennar fannst snemma á miðvikudagsmorgni skammt frá biðskýlinu þar sem hún hafði farið út úr sporvagninum. 

Maðurinn var handtekinn í úthverfi Melbourne í morgun og segir í tilkynningu frá lögreglunni í Victoria að handtakan tengist morðrannsókninni. Almenningi er þakkað fyrir þá aðstoð sem hann hafi veitt við rannsóknina. 

Aiia Maasarwe, myndir úr eftirlitsmyndavélum sem teknar voru á þriðjudagskvöldið.
Aiia Maasarwe, myndir úr eftirlitsmyndavélum sem teknar voru á þriðjudagskvöldið. Lögreglan í Victoria

Maasarwe var að tala við systur sína í síma þegar ráðist var á hana og heyrði systir hennar hvernig hún missti símann og hávaða. 

Ofbeldi gagnvart konum hefur verið töluvert í umræðunni í Ástralíu og segir baráttufólk að nú sé nóg komið og mál að linni. Boðað hefur verið til minningarstunda síðar í dag og meðal annars ætlar hópur fólks að taka þátt í þögulum mótmælum á tröppum þinghússins. Eins ætlar fólk að fjölmenna með rauðar rósir í sporvagninn sem hún var að koma úr þegar hún varð fyrir árásinni. Rauðar rósir voru hennar eftirlætisblóm.

Meðal þeirra sem hafa minnst Aiia Maasarwe er forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, en hann skrifar á Twitter um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert