Handtekin og óttast að deyja í Rússlandi

Anastasia Vashukevich.
Anastasia Vashukevich. AFP

Hvít-rússnesk fyrirsæta, sem sagðist hafa upplýsingar um tengsl Donald Trump Bandaríkjaforseta við ráðamenn í Rússlandi, var handtekin við komuna til Rússlands í gær.

Anastasia Vashukevich, sem einnig gengur undir nafninu Natysa Rybka, var tekin til fanga á Sheremetyevo-flugvellinum í Moskvu eftir að hafa verið rekin úr landi í Taílandi fyrir að halda úti svonefndum „kyn­lífsæfingatím­um“.

Lögmaður hennar, Dmitry Zatsarinsky, setti myndskeið á Instagram sem hann segir að sýni handtöku hennar.

Þar má sjá konu sem líkist Vashukevich sem lítur út fyrir að vera undir áhrifum róandi lyfja erfiða þegar fjórir menn ýta henni í hjólastól og halda svo á henni.

Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny og ýmsir rússneskir fjölmiðlamenn hafa birt myndskeiðið á Twitter síðum sínum.

Lögmaðurinn sagði að Vashukevich hefði ætlað sér að fara með tengiflugi til Minsk í Hvíta-Rússlandi en hún hafi verið gripin og dregin burt þaðan sem farið var með hana á lögreglustöð.

Anastasia Vashukevich í fangelsi í Taílandi.
Anastasia Vashukevich í fangelsi í Taílandi. AFP

Hann sagði að aðgerðir Rússa væru „alþjóðlegt hneyksli“. Áður hafði Vashukevich sagt að hún óttaðist mjög að fara aftur til Rússlands. „Ef við för­um aft­ur til Rúss­lands þá mun­um við deyja í rúss­nesku fang­elsi eða þeir drepa okk­ur,“ sagði hún í fyrra.

Í yfirlýsingu frá innanríkisráðherra Rússlands kemur fram að Vashukevich og þrír aðrir sem voru handteknir með henni á flugvellinum séu sakaðir um að „tæla aðra í vændi og stunda það sjálf“. Viðurlög við því eru allt að sex ára fangelsi.

Fólkið var í níu mánuði í varðhaldi í Taílandi áður en það var dæmt í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir vændi og fyrir að stjórna ólöglegum „kyn­lífsæfingatím­um“ og fyrir að starfa án atvinnuleyfis. Þeim var vísað úr landi í gær.

Álauðkýfingurinn og milljarðamæringurinn Oleg Deripaska.
Álauðkýfingurinn og milljarðamæringurinn Oleg Deripaska. AFP

Hún hefur lýst sér sem tálkvendi og hefur birt á netinu dagbók um það hvernig eigi að táldraga milljarðamæring. Samkvæmt umfjöllun stjórnarandstæðings Navalny frá því í fyrra heyrist í myndskeiði á Instagram-reikningi Vashukevich hvar milljarðamæringurinn Oleg Der­ipaska og Ser­gey Prik­hod­ko aðstoðarfor­sæt­is­ráðherra ræða slæmt samband Rússlands og Bandaríkjanna í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna.

Navalny gaf í skyn að mennirnir kunni að hafa þjónað sem tengiliðir milli rússneskra ráðamanna og framboðs Trumps. Deripaska hefur neitað þessum ásökunum, lögsótt Vashukevich og haft sigur í því máli. Bæði rúss­nesk yf­ir­völd og banda­rísk segja ásak­an­ir fyr­ir­sæt­unn­ar þvælu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert