Níu ára fangelsi fyrir árás með öxi

Amati bar andleg veikindi fyrir sig við réttarhöld á síðasta …
Amati bar andleg veikindi fyrir sig við réttarhöld á síðasta ári, en dómarar tóku afsökun hennar ekki gilda. AFP

Áströlsk kona hefur verið dæmd til níu ára fangelsisvistar í kjölfar tilefnislausrar árásar þar sem hún réðst á viðskiptavini 7-eleven með öxi.

BBC greinir frá því að atvikið hafi átt sér stað í janúar 2017. Hin 26 ára gamla Evie Amati gekk inn í verslun smásölukeðjunnar 7-Eleven í Sydney, vopnuð öxi, og réðst þar á tvo viðskiptavini.

Kona og karl hlutu alvarlega áverka í árásinni, en Amati sveiflaði öxinni einnig að þriðja viðskiptavininum. Honum varð ekki meint af.

Amati bar andleg veikindi fyrir sig við réttarhöld á síðasta ári, en dómarar tóku afsökun hennar ekki gilda. Hún var því dæmd til þyngstu mögulegu refsingar, níu ára fangelsisvistar, fyrir árásina, sem dómarar sögðu mjög alvarlega. Fórnarlömb árásarinnar hefðu einungis lifað af fyrir heppni.

Viti sínu fjær vegna lyfjaneyslu

Amati sagðist hafa verið viti sínu fjær fyrir árásina vegna neyslu á lyfjum og áfengi, auk þess sem geðrænni heilsu hennar hefði hrakað í undanfara árásarinnar eftir að hún hóf inntöku kynhormóna í kynleiðréttingarferli.

Upptökur úr öryggismyndavélum verslunarinnar sýna þegar Amati gengur inn í verslunina og nálgast fyrsta fórnarlambið, Ben Rimmer, sem beið í röð við afgreiðslukassann. Áttu þau í stuttum orðaskiptum áður en Amati sveiflaði öxinni í andlit Rimmer, sem hlaut 10 sentimetra langan skurð og beinbrot.

Þá næst réðst hún að seinna fórnarlambinu, Sharon Hacker, sem stóð nærri verslunardyrunum og hlaut sprungu í höfuðkúpu. Loks réðst Amati að þriðja viðskiptavininum, en honum tókst að verja sig með bakpoka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert