Ræða við starfsmenn sendiráðsins

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Bandarískir rannsakendur munu í dag hefja yfirheyrslur yfir fólki sem starfaði við sendiráð Ekvador í London þegar Julian Assange kom þangað árið 2012. Assange, stofnandi Wikileaks hefur búið í sendiráðinu síðan þá af ótta við að vera framseldur til Bandaríkjanna. 

AFP hefur eftir Wikileaks að starfsmenn bandaríska dómsmálaráðuneytisins muni ræða við sex starfsmenn sendiráðsins í höfuðborg Ekvador, Quito, í dag. Meðal annars verður starfsfólkið spurt út í heimsóknir til Assange á þessum tíma sem hann hefur búið í sendiráðinu.

Þetta er gert í kjölfar alþjóðlegrar stefnu sem dómsmálaráðuneytið hefur gefið út í tengslum við rannsókn á því að fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hafi átt í leynilegum viðræðum við Assange í sendiráðinu.

Fram kom í frétt Guardian í nóvember að Manafort hafi átt nokkra fundi með Assange frá 2013 til ársins 2016. Manafort var nýverið dæmdur sekur um fjársvik og peningaþvætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert