Þekktur rappari ákærður fyrir morð

MHD er einn vinsælasti tónlistarmaður Frakklands.
MHD er einn vinsælasti tónlistarmaður Frakklands. AFP

Franski tónlistarmaðurinn MHD hefur verið ákærður fyrir morð en ungur maður var stunginn til bana í ryskingum í París síðasta sumar. Rapparinn neitar sök.

MHD, sem heitir réttu nafni Mohamed Sylla og er 24 ára gamall Parísarbúi, skaust upp á stjörnuhimininn fyrir þremur árum en á þeim tíma starfaði hann sem pizzasendill í höfuðborginni. Tónlist hans er eins konar blanda af tónlist frá Vestur-Afríku og bandarísku hip-hopi. 

Að sögn lögreglu tóku á annan tug ungmenna þátt í átökum milli tveggja gengja þetta kvöld, 6. júlí, en átökin, sem voru á milli gengja úr 19. og 10. hverfi, enduðu með skelfingu. 23 ára gamall maður lést eftir að hafa verið stunginn og barinn til ólífis.

Booba og Kaaris.
Booba og Kaaris. AFP

Lögmaður Sylla segir að tónlistarmaðurinn hafi ekki tekið þátt í átökunum en tónlistarmaðurinn er uppalinn í 19. hverfi. Ekki hafi komið fram sönnun fyrir því að hann hafi verið á staðnum. 

Sylla er þekktastur fyrir Afro Trap Part. 3 en lagið er stuðningslag franska knattspyrnufélagsins Paris Saint-Germain og hefur verið spilað yfir 100 milljón sinnum á YouTube. Vart þarf að taka fram að tónlistarmaðurinn er mikill knattspyrnuaðdáandi. Stór hluti tónlistarmyndskeiða hans eru gerð fyrir lítið fé. Mörg tekin upp í 19. hverfi þar sem ungt fólk í knattspyrnutreyjum dansar um götur hverfisins og segist Sylla vera sendiherra unga fólksins í hverfinu. 

Í viðtali við Guardian árið 2017 talar MHD um sérstöðu sína í franska tónlistarheiminum. Þar hafi flestir rapparar notað ensk orð í textum sínum á meðan hann notar afrísk enda þekki hann Afríku betur en Bandaríkin. Þrátt fyrir að vera fæddur í Frakklandi liggja rætur hans í Afríku þar sem foreldrar hans eru frá Gíneu og Senegal.

MHD var handtekinn á þriðjudag ásamt þremur öðrum sem eru grunaðir um aðild að árásinni. Verknaði sem lögregla nefnir refsiaðgerð ungmenna úr nítjánda hverfi á keppinauta úr öðru hverfi. Fjórmenningarnir voru allir ákærðir fyrir morð í gærkvöldi.

Bifreið Sylla á að hafa sést á vettvangi bardagans en lögmaður hans segir að Sylla hafi lánað bílinn. Sá sem var með bílinn í láni er sá sem átti upptökin að slagsmálunum. 

AFP

Ekki er langt síðan átök milli tveggja helstu stjarna rappsenunnar í Frakklandi leiddu til þess að loka varð Orly-flugvellinum tímabundið í París.

Rappararnir Booba og Kaaris voru báðir á leið á tónleika í Barcelona þegar þeim lenti saman í fríhöfninni á Orly. Myndskeið af slagsmálunum fór strax af stað í netheimum enda margir áhorfendur sem fylgdust með vopnaðir símum sínum. Rappararnir fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm og sekt upp á 50 þúsund evrur.

Á einni af plötum MHD, 19, er mynd af honum …
Á einni af plötum MHD, 19, er mynd af honum klæddum knattspyrnutreyju merktri MHD 19.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert