Tilbúnir í viðræður um iðnaðarvörur

Cecilia Malmström, viðskiptastjóri Evrópusambandsins.
Cecilia Malmström, viðskiptastjóri Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið kynnti í dag viðræðuáætlun sína vegna fyrirhugaðra fríverslunarviðræðna við Bandaríkjastjórn. Viðræðurnar eru hluti af viðleitni sambandsins til þess að reyna að koma í veg fyrir að viðskiptastríð brjótist út við Bandaríkin.

Fram kemur í frétt AFP að frekari viðræður um fríverslun hafi verið hluti af samkomulagi síðasta sumar á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um að slíðra sverðin í kjölfar þess að Bandaríkjastjórn lagði verndartolla á stál og ál frá sambandinu.

Tilgangurinn er einnig sá að reyna að koma í veg fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti leggi tolla á innflutning evrópskra bifreiða til Bandaríkjanna sem myndi einkum og sér í lagi koma illa við þýska bifreiðaframleiðendur og þar með þýskt efnahagslíf.

Haft er eftir Cecilia Malmström, viðskiptastjóra Evrópusambandsins, að ekki yrði þó um viðræður um hefðbundinn fríverslunarsamning að ræða heldur væri hugmyndin að umræddur viðskiptasamningur næði eingöngu til tolla á iðnaðarvörur.

Óvíst er hins vegar um árangur viðræðnanna en ráðamenn í Bandaríkjunum lýstu því yfir í síðustu viku að þeir vildu að fyrirhugaður viðskiptasamningur næði til landbúnaðarvara sem er nokkuð sem Evrópusambandið hefur lýst sig algerlega andsnúið.

Fríverslunarviðræður hófust formlega á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sumarið 2013 en hafa legið niðri í nokkur ár. Í febrúar 2017 sagði Karel de Gucht, sem var viðskiptastjóri sambandsins þegar viðræðurnar hófust, við fjölmiðla að viðræðurnar hefðu í raun verið lamaðar allt frá því að þær hófust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert