Átta friðargæsluliðar létust í árás

Um 13.000 friðargæsluliðar starfa í Malí á vegum Sameinuðu þjóðanna. …
Um 13.000 friðargæsluliðar starfa í Malí á vegum Sameinuðu þjóðanna. Mynd úr safni. AFP

Að minnsta kosti átta friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna voru drepnir í skotárás á bækistöð friðargæsluliðanna í norðurhluta Malí í morgun, um 200 kílómetra norður af bænum Kidal, í grennd við landamærin að Alsír. Hinir látnu voru allir frá Chad.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að samtökin fordæmi árásina. 

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Malí eru að minnsta kosti sex látnir og 19 særðir og heimildir diplómata á svæðinu herma að nokkrir árásarmannanna hafi látist í árásinni.

Verk­efnið sem þeir látnu störfuðu að er talið eitt það hættu­leg­asta á veg­um Sam­einuðu þjóðanna. Verk­efnið ber heitið MINUSMA og miðar að því að koma á stöðug­leika í Malí. Um 13.000 friðargæsluliðar starfa í Malí. Árásir á bækistöðvar friðargæsluliða í Malí eru ekki einsdæmi og var síðast gerð árás á þessa tilteknu bækistöð í apríl í fyrra þar sem tveir létu lífið og nokkrir særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert