Leituðu skjóls á bensínstöð

Mikil skelfing greip um sig við Eventhallen og mætti lögregla …
Mikil skelfing greip um sig við Eventhallen og mætti lögregla á staðinn grá fyrir járnum. Sandra Romfo hljóp skelfingu lostin ásamt vinkonu sinni inn á bensínstöð og bað um að dyrum yrði læst. Ljósmynd/Ábendinganetfang Dagbladet og VG/Úr einkasafni/Samsetning VG

Mikil skelfing greip um sig á tónleikum breska rapptónlistarmannsins Geko í Eventhallen í Bryn í Ósló upp úr klukkan eitt í nótt, tólf að íslenskum tíma, þegar maður dró upp skammbyssu og hóf skothríð utan við staðinn. Hann skaut annan í fótinn áður en vopnuð lögregla kom aðvífandi á rúmlega tíu lögreglubifreiðum að sögn vitnis.

„Ég heyrði skothvelli og fékk strax slæma tilfinningu. Ég sagði vinkonu minni að hlaupa,“ segir Sandra Romfo, 31 árs gamall tónleikagestur, í samtali við norska dagblaðið VG í dag. „Við vorum nokkur sem hlupum í átt að bakherbergi í tónleikahöllinni,“ lýsir Romfo enn fremur.

Hún segir þau hafa komist út af staðnum og hlaupið sem fætur toguðu að bensínstöð í nágrenninu. „Við hlupum þangað inn til að fela okkur og báðum starfsfólkið að læsa dyrunum. Ég sá lögregluna leggja mann niður á jörðina.“

„Báðu mig að læsa“

Á hinum enda þessarar frásagnar er Andre Ranheim, starfsmaður Circle K-bensínstöðvarinnar handan götunnar gegnt tónleikastaðnum. Norska ríkisútvarpið NRK ræddi við hann: „Klukkan var rúmlega hálftvö þegar tvær grátandi stúlkur komu hlaupandi hingað inn. Þær báðu mig að læsa dyrunum því það væri allt vitlaust þarna hinum megin [við Eventhallen],“ segir Ranheim.

Vopnaður lögreglumaður leitar á manni í nágrenni Eventhallen í nótt.
Vopnaður lögreglumaður leitar á manni í nágrenni Eventhallen í nótt. Ljósmynd/Ábendinganetfang NRK

Hann segist skömmu síðar hafa séð á milli tíu og fimmtán bifreiðar með blá forgangsljós og lögreglumenn með hríðskotabyssur. „Þetta var mjög dramatískt. Hér er oftast allt með kyrrum kjörum en svo eru skyndilega mörg hundruð manns hér skelfingu lostin. Það hristir aðeins upp í manni þegar fólk er skotið í næsta nágrenni við vinnustað manns, það er engin draumaupplifun,“ segir Ranheim við NRK. Hann segist hafa orðið við beiðni stúlknanna um að læsa stöðinni og opnaði ekki á ný fyrr en vopnuð lögregla knúði dyra.

Lögreglan handtók þann sem skaut fljótlega en þá höfðu dyraverðir á tónleikunum náð skotvopninu af honum. Að sögn Per-Ivar Iversen, aðgerðastjóra lögreglunnar á staðnum, handtók lögregla alls fimm menn á vettvangi sem hún telur tengjast málinu. Ekki tókst hins vegar að hafa uppi á þeim sem fyrir skotinu varð fyrr en lögregla heimsótti læknavaktina og fann hann þar um tvöleytið.

Lögregla var enn á staðnum fyrir utan tónleikahöllina klukkan fimm í morgun við vettvangsrannsóknir, gagnasöfnun og yfirheyrslu vitna en sá sem fyrir skotinu varð mun ekki alvarlega sár.

Hinum 21 árs gamla rapplistamanni Geko, sem kemur frá Manchester en rekur ættir sínar til Alsír og Líbýu, þótti mjög miður að tónleikar hans yrðu vettvangur skotárásar og sendi hugheilar ástarkveðjur til áhorfenda á Instagram.

Rapparinn Geko frá Manchester harmaði meðferð skotvopna á tónleikum hans …
Rapparinn Geko frá Manchester harmaði meðferð skotvopna á tónleikum hans og bað fyrir bestu kveðjur til gesta. Ljósmynd/Skjáskot af Instagram-síðu Geko

Fréttir annarra norskra fjölmiðla en þegar hefur verið vísað til:

Aftenposten

Dagbladet

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert