Maren Ueland var jarðsett í dag

Maren Ueland var jarðsett í Bryne í Noregi í dag, …
Maren Ueland var jarðsett í Bryne í Noregi í dag, en hún var myrt af hryðjuverkamönnum er hún var á ferðalagi í Marokkó ásamt danskri vinkonu sinni í desember. AFP

Margmenni kom saman er Maren Ueland, norska konan sem var myrt á ferðalagi sínu um Marokkó í desember, var jarðsett í dag, en útför hennar fór fram í Time-kirkju í útjaðri Bryne. Sóknarpresturinn Stein Ødegård sagði fjölskyldu hennar hafa misst meira en orð gætu lýst, en fjallað er um athöfnina á vef norska ríkisútvarpsins NRK.

Ueland var myrt af íslömskum hryðjuverkamönnum ásamt danskri vinkonu sinni, Louisu Vesterager Jespersen. Ueland var 28 ára göm­ul og Jespersen 24 ára. Þær fund­ust látn­ar þar sem þær höfðu tjaldað í fjöll­un­um í El Haouz-héraði, skammt frá ferðamanna­bæn­um Imlil. Þær voru á bak­poka­ferðalagi um Mar­okkó.

Trine Nome, vinkona Ueland,  lýsti vinkonu sinni sem náttúruelskandi dýravini og sálufélaga sínum. Hún sagði að þær tvær hefðu báðar viljað mennta sig til þess að starfa úti í náttúrunni í framtíðinni, en þær Ueland og Jespersen voru nemar í ferðamálafræði.

„Stóllinn þinn við eldhúsborðið er tómur, en þú ert enn þá með mér, mín besta Maren,“ sagði Nome við lok minningarávarps síns.

Megum ekki láta ótta ná völdum

Bent Høie heilbrigðisráðherra Noregs var viðstaddur útför Ueland fyrir hönd norsku ríkisstjórnarinnar. Hann sagði að örlög Marenar mættu ekki verða til þess að fólk leyfði ótta að taka yfir.

„Við verðum að  halda áfram að klifra í fjöllum og róa í ám.  Við verðum að halda áfram að fara frjáls og óttalaus út í heiminn. Við verðum að halda áfram að lifa lífi okkar. Eins og Maren gerði það,“ sagði ráðherrann.

Lamia Radi, sendiherra Marokkó í Noregi, flutti einnig ávarp við útförina og byrjaði á að segja að enginn sem fremdi hryðjuverk í nafni íslamstrúar, væri múslimi í raun. Síðan flutti hún viðstöddum skilaboð frá marokkósku þjóðinni.

Eftir útförina í dag fer fram minningarstund um Ueland í Bryne, en þar kemur íslenski tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti Einarsson fram.

Sendiherra Marokkó í Noregi flutti samúðarkveðjur frá íbúum landsins. Þessi …
Sendiherra Marokkó í Noregi flutti samúðarkveðjur frá íbúum landsins. Þessi mynd var tekin fyrir utan sendiráð Noregs í Rabat í Marokkó í desember. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert