Bensínsprengjum varpað í Lissabon

AFP

Töluverðar skemmdir urðu á húsnæði lögreglustöðvar og bifreiðum í Lissabon í gærkvöldi og nótt eftir að bensínsprengjum var varpað inn á lögreglustöðina í Setubal-hverfinu og á bifreiðar í tveimur öðrum úthverfum borgarinnar.

Um 200 manns tók þátt í mótmælum sem beindust að lögregluofbeldi og rasisma í miðborg höfuðborgar Portúgals í gærkvöldi. Þegar mótmælendur hófu að kasta grjóti í lögreglu svaraði hún með því að skjóta gúmmíkúlum að þeim. Nokkrir slösuðust en fjórir mótmælendur voru handteknir.

AFP

Einhverjum klukkustundum síðar var þremur bensínsprengjum varpað að lögreglustöðinni í Setubal, sem er suður af miðborginni. Enginn slasaðist. Í tveimur öðrum úthverfum var bensínsprengjum einnig kastað og eru nokkrir tugir bifreiða skemmdir í Odivelas og Loures, að sögn lögreglu. 18 ára piltur er í haldi í tengslum við málið.

AFP

Að sögn lögreglu eru ekki nein bein tengsl milli mótmælanna í miðborginni og skemmdarverkanna um nóttina en eins og áður sagði tóku um 200 manns þátt í mótmælunum í miðborginni. Þar var fólk að mótmæla hversu hart lögregla tók á málunum þegar hún reyndi að stöðva slagsmál í Seixal-hverfinu um helgina.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert