Maðurinn með eldspýturnar

Rúmlega þrítugur Sýrlendingur, sem býr í Svíþjóð, er fyrir rétti í Kaupmannahöfn en hann er ákærður fyrir að hafa ætlað að fremja hryðjuverk í Danmörku. Réttarhöldin hófust í morgun og meðal meðal gagna í málinu eru tveir eldhúshnífar, flugeldar og 17.460 eldspýtur. 

Maðurinn, sem býr í Malmö, neitar sök en að sögn saksóknara ætlaði hann að nota fyrrnefndan búnað til þess að ráðast á fólk af handahófi í Kaupmannahöfn. 

Verjandi mannsins, Karin D. Svenningsen, segir að skjólstæðingur hennar hafi óskað eftir því að hann myndi ekki tjá sig um málið en maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í meira en eitt ár. Málið tengist öðrum varðhaldsfanga, rúmlega tvítugum Sýrlendingi sem var handtekinn í  Rødby, en ferjan á milli Danmerkur og Þýskalands fer þaðan, vegna þess að hann var hvorki með vegabréf né persónuskilríki með mynd.

Við leit í farangri mannsins kom í ljós að hann var með mikið magn af eldspýtum og öðrum varningi sem hægt er að nota til sprengjugerðar. Maðurinn sagði við réttarhöldin að hann hafi átt að fara með pokann til Kaupmannahafnar og afhenda hann á aðalbrautarstöðinni. Þessi maður var fundinn sekur um alla ákæruliði og dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi.

<a href="https://www.dr.dk/nyheder/indland/terrorsag-begynder-syrer-anklaget-ville-angribe-tilfaeldige-med-kniv-i-koebenhavn" target="_blank"><strong>Frétt danska ríkisútvarpsins</strong></a>

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert