Mjólk af matseðlinum í Kanada

Mjólkurvörur fá ekki lengur sinn eigin fæðuflokk.
Mjólkurvörur fá ekki lengur sinn eigin fæðuflokk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kanadísk yfirvöld gáfu á dögunum út nýjar ráðleggingar varðandi mataræði landsmanna. Vakið hefur athygli að mjólkurvörur hafa alfarið horfið úr þeim matardagskammti sem heilbrigðisyfirvöld í landinu leggja til.

Kanadabúum er ráðlagt að neyta helst óunninna matvara, en ráðleggingunum er ætlað að stuðla að heilsu landsmanna. Ráðleggingar yfirvalda í þessum efnum var síðast breytt árið 2007, en þriggja ára vinna liggur að baki breytingunum sem nú voru gerðar á ráðlögðum matardagskammti.

Talsmenn plöntumiðaðs fæðis fagna því að mjólkurvörur hafi loks verið teknar af matseðlinum, á meðan mjólkuriðnaðurinn hefur lýst yfir mikilli reiði vegna málsins.

Fleiri fæðuflokkar fengu einnig að finna fyrir niðurskurði kanadískra yfirvalda og meðal annarra breytinga sem gerðar hafa verið er að sú fullyrðing að glas af hreinum ávaxtasafa geti komið í stað ávaxta hefur verið tekin út.

Studdust ekki við rannsóknir styrktar af iðnaðinum

Heilbrigðisyfirvöld höfðu lengi verið gagnrýnd fyrir að vera mjólkur- og kjötiðnaðinum undirgefin, en talsmaður skrifstofu næringar og ráðleggingar, Hasan Hutchinson, segir misræmið nú hafa verið leiðrétt. „Það var alveg ljóst þegar við skoðuðum gagnagrunninn að við myndum ekki styðjast við rannsóknir sem hefðu verið styrktar af iðnaðinum sjálfum.“

Kanadabúum er ráðlagt að fylla matardisk sinn til hálfs með grænmeti og ávöxtum. Fjórðungur matarskammtsins á síðan að vera korn og sterkja og síðasti fjórðungurinn prótein. Meðal þeirra próteingjafa sem nefndir eru, eru mjólkurvörur og kjöt, en áður fengu bæði mjólkin og kjötið sinn eigin fæðuflokk, sem landsmönnum var ráðlagt að neyta.

Umfjöllun BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert