Saksóknari dæmdur í #MeToo-máli

Frásögn Seo Ji-hyun af áreitninni leysti úr læðingi fjölda frásagna …
Frásögn Seo Ji-hyun af áreitninni leysti úr læðingi fjölda frásagna sem urðu að #MeToo-hreyfingu í Suður-Kóreu.

Fyrrverandi saksóknari í Suður-Kóreu hlaut í dag tveggja ára dóm fyrir valdníðslu í máli sem varð kveikjan að #MeToo-hreyfingunni í landinu.

Mál saksóknarans Ahn Tae-geun vakti mikla athygli, en hann var ákærður fyrir að hafa ítrekað káfað á yngri kvenkyns starfsfélaga í jarðarför föður samstarfsmanns þeirra. Eftir að konan, Seo Ji-hyun, lagði fram formlega kvörtun vegna málsins, lét hann flytja hana til í starfi. Var henni fundin staða á landsbyggðinni sem hafði skaðleg áhrif á starfsframa hennar.

Konan lét þetta yfir sig ganga árum saman, en ákvað svo að segja sögu sína í sjónvarpsviðtali í janúar á síðasta ári. Slík viðtöl eru, að sögn AFP-fréttaveitunnar, sjaldgæf í þessu íhaldssama samfélagi þar sem fórnarlömb kynferðisárása eru oft treg til að tjá sig af ótta við skömmina sem fylgt getur opinberuninni.

Viðtalið leysti hins vegar úr læðingi öldu svipaðra ásakana í garð annarra hátt settra karla, sem svo varð að #MeToo-hreyfingu í landinu.

Ekki var hægt að ákæra Ahn, sem hafði verið rekinn úr starfi árið 2017 fyrir spillingu, fyrir kynferðisáreitni þar sem slík brot fyrnast eftir ár. Þess í stað var hann ákærður fyrir valdníðslu með því að láta flytja Seo til í starfi.

Við uppkvaðningu dómsins í Seoul sagði dómarinn, Lee Sang-ju, nægar sannanir fyrir því að Ahn hafi látið senda Seo burt frá Seoul „af því að hann óttaðist afleiðingar af formlegri kæru hennar“.

Sjálfur hefur Ahn haldið því fram að hann muni ekkert eftir atvikinu af því að hann hafi verið drukkinn í minningarathöfninni. Dómarinn sagði hann hins vegar örugglega hafa vita af innri rannsókninni á þeim tíma sem hann lét færa Seo til í starfi.

Nokkrir mánuðir eru liðnir frá því Ahn Hee-jung, fyrrverandi frambjóðandi til embættis forseta Suður-Kóreu, var sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað kvenkyns aðstoðarmanni sínum. Vakti sá úrskurður mikla reiði hjá baráttufólki fyrir bættum réttindum kvenna í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert