Segir Instagram bera ákveðna ábyrgð

Ljósmynd / Getty Images

Molly Russell var fjórtán ára gömul þegar hún tók eigið líf árið 2017. Faðir hennar segir að hann telji að Instagram beri ákveðna ábyrgð á dauða hennar en þegar fjölskylda hennar skoðaði Instagram-aðgang hennar að henni látinni fann hún ýmislegt efni tengt sjálfsvígum og þunglyndi.

Ian Russel ræðir andlát dóttur sinnar við BBC en þegar hún lést hélt fjölskyldan að ekkert amað að. Molly var yngst þriggja systra og að sögn Russel var hún ósköp venjulegur unglingur, að minnsta kosti út á við. Jafnvel daginn áður en hún lést lærði hún heima og setti dótið sitt  í skólatöskuna alveg eins og hún ætlaði sér að fara í skólann eins og venjulega. 

Hann segir að frá því Molly lést hafi fjölskyldan verið að skoða og fara yfir síður á samfélagsmiðlum sem hún fylgdi. Í ljós kom að hún var í samskiptum við fólk sem glímdi við þunglyndi, sjálfsskaða eða var í sjálfsvígshugsunum. Russel viðurkennir að margt af því hafi verið jákvætt og í einhverjum tilvikum hafi verið um að ræða fólk sem reyndi að styðja aðra sem glímdu við sömu hugsanir. Eða fólk sem reyndi að horfa jákvætt fram á við eða finna leiðir til þess að hætta sjálfsskaða.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið 

Annað var neikvæðara og hvatti til sjálfsskaða og jafnvel var að finna tengla inn á sjálfsskaða- og sjálfsvígssíður. „Og ég er í engum vafa um að Instagram á hlut að máli í dauða dóttur minnar.“

Molly skrifaði kveðjubréf til fjölskyldunnar og þakkar faðir hennar fyrir það því þar reyndi hún að útskýra vanlíðan sína. 

Í yfirlýsingu frá Instagram kemur fram að vefurinn leyfi ekki efni sem hvetur til eða lofsyngur sjálfsskaða eða sjálfsvíg og að slíkt efni verði fjarlægt af vefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert