Vilja börn í fangelsi

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. AFP

Börn niður í allt að 12 ára gætu hafnað í fangelsi en frumvarp þess efnis er til umfjöllunar á þinginu í Filippseyjum. Mannréttindahópar hafa mótmælt tillögunni harðlega.

Frumvarpið er meðal þeirra aðgerða sem Rodrigo Duterte, forseti landsins, vill grípa til í stríði hans gegn fíkniefnum og glæpum. Þúsundir hafa látið lífið vegna stjórnunarhátta forsetans síðan um mitt árið 2016.

Stuðningsmenn forsetans á þingi lögðu upprunalega fram tillögu þess efnis að hægt yrði að fangelsa börn niður í níu ára gömul. Eftir mikil mótmæli var ákveðið að hækka aldurinn upp í 12 ára fyrir aðra umræðu.

Eins og staðan er í dag er hægt að fangelsa 15 ára í Filippseyjum.

„Við teljum að það sé hæpið að 12 ára börn séu sakhæf,“ sagði Carlso Conde, starfsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch. Hann bætti því við að algjört lágmark sakhæfis ætti að vera 14 ár.

Duterte sagði í gær að glæpagengi noti börn til að dreifa eiturlyfjum. 

„Þau fara með eiturlyfin til viðskiptavina og þau taka á móti greiðslunni,“ sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert