Haga sér eins og „stafrænir glæpamenn“

„Facebook er stjórnlaust lestrarslys sem er að eyðileggja lýðræðið,“ segir …
„Facebook er stjórnlaust lestrarslys sem er að eyðileggja lýðræðið,“ segir meðal annars í 108 síðna skýrslu menn­ing­ar-, fjöl­miðla- og íþrótta­nefnd­ar breska þings­ins um falsfréttir og upplýsingafölsun sem kom út í dag. AFP

Upplýsingafölsun á netinu verður sífellt margbrotnari og því þurfa fyrirtæki líkt og Facebook að innleiða sérstaka reglugerð til að takast á við falsfréttir. Þetta er mat Dami­an Coll­ins, formanns menn­ing­ar-, fjöl­miðla- og íþrótta­nefnd­ar breska þings­ins.

„Facebook er stjórnlaust lestrarslys sem er að eyðileggja lýðræðið,“ segir meðal annars í 108 síðna skýrslu þingnefndarinnar um falsfréttir og upplýsingafölsun sem kom út í dag.

Facebook ógn við lýðræðið

Niðurstaða skýrslunnar er sú að stjórnendur Facebook hafi brotið persónuverndar- og samkeppnislög af ásettu ráði þegar fyrirtækið leyfði nafnlausum aðilum að nýta persónuupplýsingar notenda í þeim tilgangi að fá þá til að styðja ákveðna menn eða málefni. Lýðræðinu stafi ógn vegna þessa og því sé ástæða til að regluvæða Facebook sem fyrst.

„Fyrirtæki á borð við Facebook ætti ekki að vera heimilt að haga sér eins og „stafrænir glæpamenn“ með því að telja sig vera hafin yfir lög,“ segir jafnframt í skýrslunni. Collins er ekki tilbúinn að fullyrða að fyrirtæki líkt og Facebook, Twitter og Youtube hafi gerst brotleg en ljóst sé að þörf er á að endurskilgreina siðareglur og lög sem snúa að fyrirtækjunum.

„Við sjáum að lygar eru útbreiddar, sérstaklega þegar stutt er í kosningar, og við ættum að geta leitað til tæknifyrirtækja og beðið þau að bregðast við um hæl,“ sagði Collins í útvarpsviðtali á BBC í morgun.

Dami­an Coll­ins, formaður menn­ing­ar-, fjöl­miðla- og íþrótta­nefnd­ar breska þings­ins.
Dami­an Coll­ins, formaður menn­ing­ar-, fjöl­miðla- og íþrótta­nefnd­ar breska þings­ins. Ljósmynd/Twitter

Þingnefndin hafði Cambridge analytica þegar til skoðunar þegar upp komst í mars í fyrra að fyrirtækið hefði nýtt per­sónu­upp­lýs­ing­ar Face­book-not­enda til að reyna að fá ókveðna kjós­end­ur til að kjósa Don­ald Trump í banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um haustið 2016. Rannsókn þingnefndarinnar hefur leitt í ljós að persónuupplýsingar hafa margsinnis verið nýttar á einn eða annan hátt í aðdraganda kosninga í Bretlandi. 

Þá er Mark Zuckerberg, forstjóri samfélagsmiðlaveldisins, sagður hafa sýnt breskum ráðamönnum fyrirlitningu með framkomu sinni þar sem Facebook hafi af yfirlögðu ráði reynt að villa um fyrir þinginu.  

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, er sagður hafa sýnt …
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, er sagður hafa sýnt breskum ráðamönnum fyrirlitningu með framkomu sinni þar sem Facebook hafi af yfirlögðu ráði reynt að villa um fyrir þinginu. AFP

Afskipti af kosningum í Bretlandi verði rannsökuð

Það er einnig niðurstaða skýrslunnar að bresk kosningalög þjóna ekki tilætluðum tilgangi og eru berskjölduð gagnvart utanaðkomandi aðilum. Stjórnvöld eru hvött til að grípa til aðgerða hið snarasta, meðal annars með því að setja reglur um efni sem birtist á Facebook og að kosningalög í Bretlandi verði endurskoðuð með tilliti til þess. Collins segir að gefa verði yf­ir­völd­um meiri völd til þess að hafa eft­ir­lit með upp­lýs­inga­ör­yggi.

Einnig er lagt til að breska ríkisstjórnin láti framkvæma óháða rannsókn um afskipti erlendra aðila að öllum kosningum í Bretlandi frá 2014.

Umfjöllun The Guardian um skýrsluna má nálgast hér og hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert