Kosið aftur í Norður-Karólínu

Enn er eitt sæti ófyllt í þinghúsinu í Washington og …
Enn er eitt sæti ófyllt í þinghúsinu í Washington og ljóst er að kosið verður aftur um það. AFP

Ákveðið hefur verið að nýjar kosningar fari fram níunda kjördæmi Norður-Karólínuríkis, um sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þetta tilkynnti fimm manna kjörnefnd í ríkinu í gær.

Frambjóðandi Repúblikanaflokksins, Mark Harris, sem fékk fleiri atkvæði í kosningunum í nóvember, en hafði ekki tekið sæti á þingi vegna ásakana um kosningasvindl, sagði að réttast væri að kjósa aftur.

Harris fékk 905 atkvæðum fleiri en demókratinn Dan McCready í þingkosningunum í nóvember, en strax og farið var að rýna í tölurnar eftir kosningar kom í ljós að hann fékk hátt hlutfall utankjörfundaratkvæða í Bladen-sýslu, eða 61%. Það þótti óvenjulegt, sérstaklega í ljósi þess að einungis 19% þeirra sem kusu hann utan kjörfundar voru skráðir repúblikanar.

Málið var því skoðað nánar og í ljós kom að maður að nafni L. McCrae Dowless Jr. og aðilar tengdir honum höfðu stafað fyrir Harris við það að hjálpa kjósendum að óska eftir utankjörfundar-atkvæðaseðlum. Það er löglegt í ríkinu, en það sem er ekki löglegt er að taka þessa sömu atkvæðaseðla aftur af fólkinu og póstleggja þá sjálfur.

Það er það sem Dowless Jr. og félagar eru sagðir hafa gert, og er athæfi þeirra til rannsóknar hjá yfirvöldum.

Harris mætti fyrir kjörnefndina í gærmorgun og samkvæmt ítarlegri frásögn New York Times af málinu mun honum hafa gengið illa að svara beinskeyttum spurningum þeirra fimm sem í nefndinni sitja og virtist koma með misvísandi svör um tengsl sín við Dowless Jr., auk þess sem hann bar fyrir sig minnisleysi um ýmislegt.

Hann las svo upp yfirlýsingu er hann kom aftur í salinn eftir hádegishlé og óskaði eftir því að kosið yrði aftur um sætið sem hann vann í kosningunum í nóvember, þar sem traust almennings á niðurstöðum kosninganna í nóvember væri orðið svo lítið.

Kjörnefndin tók undir það og því ljóst að síðasta sætið í fulltrúadeild Bandaríkjaþings verður ekki fyllt í bráð.

Umfjöllun New York Times um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert