Beto fær 6 milljónir dollara á fyrsta degi

Demókratinn og forsetaframbjóðandinn Beto O'Rourke heilsar hér stuðningsmönnum.
Demókratinn og forsetaframbjóðandinn Beto O'Rourke heilsar hér stuðningsmönnum. AFP

Beto O‘Rourke, sem tilkynnti síðustu helgi að hann hygðist gefa kost á sér sem frambjóðandi Demókrataflokksins í bandarísku forsetakosningunum árið 2020 sló fyrri met forsetaframbjóðenda flokksins, er hann náði að safna 6,1 milljón Bandaríkjadala í kosningasjóð sinn á fyrsta sólarhringnum.

Fyrra metið átti Bernie Sanders, sem atti kappi við Hillary Clinton um stuðning flokksins fyrir forsetakosningarnar 2016. Guardian segir enga hinna frambjóðendanna sem gefa kost á sér fyrir kosningarnar nú hafa náð að safna viðlíka upphæð með sama hraða.

Starfsmenn framboðs O‘Rourke, sem er fyrrverandi þingmaður Texas-ríkis, hafa ekki gefið upp hversu margir hafi styrkt O‘Rourke til þessa, né heldur hversu háar fjárgjafirnar séu að meðaltali.

„Á réttum sólarhring hafa Bandaríkjamenn víða um land sameinast um að sanna að það er hægt að vera með forsetaframboð úr grasrótinni,“ sagði í yfirlýsingu frá O‘Rourke. Segir hann framboð sitt ekki vera framboð sérhagsmunahópa eða stórfyrirtækja, heldur sé það framboð almennings.

Líkt og Sanders fyrir síðustu forsetakosningar hefur O‘Rourke hafnað öllum svonefndum Pac (Political action committee) framlögum. Hann hefur þó ekki útilokað að hann muni efna til styrktarviðburða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert