Óhugnanlegt að vita af árásarmanninum á flótta

Einn er látinn og nokkrir særðir eftir skotárás í sporvagni …
Einn er látinn og nokkrir særðir eftir skotárás í sporvagni við 24. október-torgið í Utrecht í Hollandi í morgun. AFP

„Allir eru í miklu sjokki,“ segir Guðrún Þorsteinsdóttir, meistaranemi í upplýsingatækni við háskólann í Utrecht, í samtali við mbl.is. Guðrún er búsett rétt hjá 24. október-torginu þar sem maður hóf skotárás á farþega í sporvagni um klukkan 10 að staðartíma í morgun.

Guðrún var í skólanum þegar árásin átti sér stað og heyrði af henni á samskiptasmáforritinu What´s app. Heimildir fjölmiðla herma að einn sé látinn og margir særðir. Vinkona Guðrúnar var á leiðinni til læknis rétt hjá torginu í morgun og segir Guðrún það óþægilega tilhugsun að vita af vinkonu sinni svona nálægt árásarmanninum.

„Mér finnst þetta ótrúlega óþægilegt, maður fær kökk í hálsinn að þetta sé svona nálægt manni, það er svo óhugnanlegt.“

Guðrún Þorsteinsdóttir stundar meistaranám í upplýsingatækni við háskólann í Utrecht …
Guðrún Þorsteinsdóttir stundar meistaranám í upplýsingatækni við háskólann í Utrecht og var hún í skólanum þegar árásin átti sér stað, en hún er búsett rétt hjá torginu þar sem skotárásin hófst. Ljósmynd/Aðsend

Árásarmaðurinn er á flótta og hefur hæsta viðbúnaðarstigi verið lýst yfir í borginni og er það í fyrsta sinn sem það er gert. Lögreglan útilokar ekki að um hryðjuverk sé að ræða og hefur Pieter-Jaap Aal­bers­berg, yf­ir­maður hryðju­verka­varna í Hollandi, virkjað sér­stakt hryðju­verkat­eymi til að hafa uppi á árás­ar­mann­in­um. Talið er árásarmaðurinn hafi skotið úr byssu sinni á fleiri stöðum en á torginu.

Guðrún segir það líka afar óþægilega tilhugsun að ekki sé búið að ná árásarmanninum. Háskólanum sem og fleiri opinberum byggingum hefur verið lokað og mun Guðrún því halda sig innan veggja skólans á meðan árásarmannsins er leitað. Öryggisgæsla hefur verið hert á flugvöllum í Hollandi og hefur lögreglan í Þýskalandi aukið eftirlit við landamærin að Hollandi. 

Árásarmaðurinn er á flótta frá lögreglu.
Árásarmaðurinn er á flótta frá lögreglu. AFP

Utanríkisráðuneytið hvetur Íslendinga í Utrecht að láta aðstandendur vita af sér eða gera grein fyrir sér á samfélagsmiðlum. Þeir sem þurfi á aðstoð að halda geta haft samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Þá er Íslendingum á vettvangi bent á að virða lokanir og tilmæli yfirvalda og fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert