Þrír unglingar létust í troðningi

Mark Hamilton hjá lögreglunni á Norður-Írlandi ræðir við fjölmiðla í …
Mark Hamilton hjá lögreglunni á Norður-Írlandi ræðir við fjölmiðla í dag. Ljósmynd/Lögreglan á Norður-Írlandi

Þrír unglingar létust í troðningi fyrir utan diskótek í bænum Cookstown á Norður-Írlandi í gærkvöldi, ein 17 ára stúlka og 16 og 17 ára gamlir piltar. Dansleikur var haldinn á Greenvale-hótelinu í bænum, í tilefni af degi heilags Patreks, sem var í gær.

Ein stúlka til viðbótar var flutt á spítala og tveir aðrir þurftu á aðhlynningu að halda, en troðningurinn myndaðist þegar mörg hundruð unglingar voru að reyna að koma sér inn á dansleikinn eftir að hafa komið þangað með rútum.

Mark Hamilton hjá lögreglunni á Norður-Írlandi segir að rannsóknarlögreglumenn séu að skoða hvernig þetta átti sér stað. Hann segir að það líti út fyrir að stór hópur ungmenna hafi streymt að hótelinu með þeim afleiðingum að nokkrir tróðust undir.

„Fólk þarf að stíga fram og segja okkur hvað gerðist,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Hamilton, en lögregla hefur kallað eftir því að unglingarnir sem voru viðstaddir er þetta hörmulega slys átti sér stað sendi henni myndbandsupptökur beint og biðlar til fólks um að deila þeim ekki á samfélagsmiðlum.

Fjölmiðillinn Irish Examiner greinir frá því að mikil sorg ríkti í samfélaginu í Cookstown, sem er í miðju Norður-Írlandi. Þar búa rúmlega 20.000 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert