Fundu bréf í bíl árásarmannsins

Bréf, sem fannst í bílnum sem Gökmen Tanis flúði á að lokinni skotárás í sporvagni í hollensku borginni Utrecht í gær, er ein ástæða þess að yfirvöld telja mögulega um hryðjuverk að ræða.

Þrír fórust í árásinni og fimm til viðbótar særðust, þar af þrír alvarlega.

Tanis, sem fæddist í Tyrklandi, var handtekinn í gærkvöldi og segja hollensk yfirvöld hann ekki hafa haft nein tengsl við fórnarlömbin.

„Við skoðum alvarlega hvort tilefnið sé hryðjuverk. Bréf sem fannst í flóttabílnum og eðli árásarinnar styðja þá skoðun,“ sagði í yfirlýsingu frá embætti saksóknara. BBC segir yfirvöld þó ekki hafa tilgreint hvað stóð í bréfinu, né heldur sé búið að útiloka að tilefni árásarinnar kunni að vera annað.

Rauðum bíl af gerðinni Renault Clio var stolið í nágrenni árásarstaðarins og fannst hann síðar í Tichelaarslaan-götu, í nágrenni þess stað þar sem hinn grunaði var handtekinn.

Borgarstjóri Utrecht, Jan van Zanen, leggur hér blóm í nágrenni …
Borgarstjóri Utrecht, Jan van Zanen, leggur hér blóm í nágrenni árásarstaðarins á 24 Oktoberplein, torginu þar sem árásin átti sér stað. AFP

Auðnuleysingi en ekki hryðjuverkamaður

Nágrannar Tanis hafa lýst honum sem auðnuleysingja og smáglæpamanni, en ekki hryðjuverkamanni.

Hollenska dómsmálráðuneytið staðfesti í dag að Tanis hefði nýlega verið látinn laus úr varðhaldi sem hann hafði verið úrskurðaður í í tengslum við nauðgunarmál. Var hann látinn laus eftir að hafa lofað að sýna yfirvöldum samstarfsvilja.

BBC segir hann áður hafa verið fundinn sekan um glæpi og nú síðast fyrr í þessum mánuði.

Tveir aðrir eru einnig í varðahaldi vegna málsins og eru yfirvöld að rannsaka hvort þeir hafi átt aðild að árásinni. Hollenskir fjölmiðlar hafa eftir lögfræðingi mannanna að þeir séu bræður, en ekki skyldir Tanis.

Fótboltaþjálfari og starfsmaður á skyndibitastað

Búið er að birta nöfn tveggja þeirra sem létust í árásinni. Eitt fórnarlambanna var hin 19 ára Roos Verschuur, sem vann á skyndibitastað í Vianen, sem er suður af Utrecht. Annar var 49 ára fótboltaþjálfari, Rinke Terpstra, sem átti þrjú börn.

Þriðja fórnarlambið var 28 ára karlmaður frá Utrecht.

Þrír þeirra sem særðust í árásinni eru enn í lífshættu og heimsótti Jan van Zanen, borgarstjóri Utrecht, þau í dag. Tvö þeirra eru konur á þrítugsaldri og það þriðja karlmaður á áttræðisaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert