Strandhögg mislinga í Ósló

Bólusett við mislingum á heilsugæslustöðinni Sólvangi Hafnarfirði, eitt tilfelli hefur …
Bólusett við mislingum á heilsugæslustöðinni Sólvangi Hafnarfirði, eitt tilfelli hefur nú greinst í Ósló. mbl.is/​Hari

Norðmenn taka nú á móti þeim vágesti sem herjað hefur á Íslendinga, mislingum, en heilbrigðisyfirvöld Óslóar létu þau boð út ganga í gærkvöldi að smittilfelli hefði greinst í borginni.

Sá smitaði er sagður hafa heimsótt læknavakt við Storgata á þriðjudaginn í síðustu viku milli klukkan 10 og 17 auk þess sem hann mun hafa verið gestur á tónleikum í Parketeatret daginn eftir. Hvetja heilbrigðisyfirvöld borgarinnar nú alla þá sem verið hafa á nefndum stöðum um það bil á greindum tíma að hafa samband við heimilislækni finni þeir fyrir einhverjum einkennum.

Mislingatilfelli hafa ekki verið mörg í Noregi síðustu ár, þó greindust þrjú í febrúar í fyrra, eitt í starfsmanni heilbrigðiskerfisins og tvö í börnum, og voru allir sjúklingarnir að koma úr ferðalögum utan landsteinanna. Aftenposten greindi þá frá því að mislingatilfellum í Evrópu árið áður, 2017, hefði fjölgað um 300 prósent.

„Byrja bara eins og kvef“

„Mislingar eru sjaldgæfir í Ósló, yfirleitt eru þetta örfá tilfelli á ári,“ segir Tore Steen, yfirlæknir sóttvarna, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hann segir mislinga bráðsmitandi og að þeir sem ekki hafi verið bólusettir eða fengið sjúkdóminn séu í áhættuhópi varðandi smit.

„Vandamálið með mislinga er að þeir byrja bara eins og kvef,“ segir Steen, „en eftir nokkra daga breiða útbrot sig um allan skrokkinn og þá er ekki flókið að greina þá,“ segir hann.

Ekki er ljóst hvernig sjúklingurinn nýgreindi smitaðist en Steen segir það númer eitt, tvö og þrjú að koma með öllum leiðum í veg fyrir frekara smit og sé fólk hvatt til að hafa samband við heimilislækni sinn eða læknavakt verði það einkenna vart.

NRK

VG

TV2

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert