Veldur „verulegum hörmungum“

Íbúar leita í rústum húsa í Chiminimani í Mósambík eftir …
Íbúar leita í rústum húsa í Chiminimani í Mósambík eftir að fellibylurinn Idai fór þar yfir. AFP

Fellibylurinn Idai hefur valdið „verulegum hörmungum“ í suðurhluta Afríku, sem hafa áhrif á líf hundraða þúsunda ef ekki milljóna manna, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Er tala látinna þegar komin upp í 300 samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar.

Mikil flóð og eyðilegging hafa orðið í Mósambík, Simbabve og Malaví af völdum Idai og hefur Filipe Nyusi, forseti Mósambík, sagt um að ræða náttúruhamfarir sem séu verulegar að umfangi.

„Meira en 200 manns eru þegar látnir og tæplega 350.000 eru í hættu,“ hefur AFP eftir Nyusi sem segir Idai kunna að hafa kostað meira en 1.000 manns lífið.

Stórt landsvæði við borgina Beira í Mósambík er nú undir …
Stórt landsvæði við borgina Beira í Mósambík er nú undir vatni eftir að áin Buzi flæddi yfir bakka sína. AFP

„Við þurfum alla þá skipulagsaðstoð sem við getum fengið,“ hefur BBC eftir Christian Lindmeier hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Stjórnvöld í Mósambík segja 100.000 manns í nágrenni Beira þurfi nauðsynlega á björgun að halda. Um 50 km landsvæði þar í kring er nú undir vatni eftir að áin Buzi flæddi yfir bakka sína.

Fylkisstjóri í nágrannahéraðinu Manica segir fólk á því svæði einnig þurfa á aðstoð að halda. „Það sem við sáum er við flugum yfir er bæði hryggilegt og flókið,“ segir fylkisstjórinn Manuel Rodrigues. „Við sáum fólk umkringt vatni vera að biðja um aðstoð. Það hefst við á húsþökum sem gerð eru úr sinkplötum. Aðrir eru í flóðavatninu. Við sáum margt fólk,“ sagði hann. Fólkið sé þegar búið að hafast við án matar og vatns við þessar aðstæður í 2-3 daga og aðstoð þurfi að berast hið fyrsta.

Íbúar standa hér á veginum milli Beira og Chimoio og …
Íbúar standa hér á veginum milli Beira og Chimoio og virða fyrir sér skemmdirnar sem Idai olli. AFP

Stjórnvöld í Simbabve segja staðfest að 98 manns hið minnsta hafi farist og rúmlega 200 manns sé saknað eftir að Idai fór þar yfir. Sagði forseti landsins, Emmerson Mnangagwa, stjórnvöld nú halda úti björgunaraðgerðum og matargjöfum. Um 20.000 hús í Simbabve urðu fyrir skemmdum af völdum fellibylsins.

Sameinuðu þjóðirnar segja að minnsta kosti 1,7 milljónir manna búa á þeim svæðum í Mósambík sem fellibylurinn fór yfir og þá er fellibylurinn einnig sagður hafa haft áhrif á líf 920.000 manna í Malaví.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert