May óskar eftir að fresta Brexit

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í dag. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, óskaði formlega eftir því við forystumenn Evrópusambandsins að formlegri útgöngu landsins úr sambandinu yrði frestað um þrjá mánuði eða til 30. júní í sumar. May stóð frammi fyrir hótunum nokkurra ráðherra hennar um að þeir kynnu að segja af sér ef útgöngunni yrði frestað lengur en í þrjá mánuði.

Eins og staðan er núna er gert ráð fyrir því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið 29. mars en samþykki sambandsins þarf til þess að fresta því. Ráðamenn Evrópusambandsins hafa sagt að ekki sé víst að frestunin verði samþykkt en til þess þurfi May að sýna fram á að það muni skila einhverjum árangri í að fá neðri deild breska þingsins til þess að samþykkja útgöngusamning hennar við sambandið sem hefur verið hafnað tvisvar af þinginu.

May hyggst reyna að knýja fram þriðju atkvæðagreiðsluna um útgöngusamninginn í næstu viku en óvíst er að af því verði þar sem John Berkow, forseti neðri deildar breska þingsins, hefur lagst gegn því að greidd verði atkvæði um sama samninginn aftur. Gera yrði fyrst einhverjar grundvallarbreytingar á honum. May hefur sagt að ekki komi til greina að fresta útgöngunni úr Evrópusambandinu, sem kölluð er Brexit, lengur en til 30. júní.

Ef útgöngusamningurinn yrði samþykktur þyrfti hvort sem er að fresta útgöngunni úr Evrópusambandinu til þess að staðfesta samninginn að sögn May. Ef honum yrði hafnað yrði þingið að ákveða framhaldið. Lengri frestun en til 30. júní fæli hins vegar í sér að hennar mati að ekki hefði tekist að hrinda ákvörðun kjósenda í framkvæmd. May hefur enn fremur gefið í skyn að yrði útgöngunni frestað frekar gæti hún sagt af sér.

Meirihluti breskra kjósenda, eða 52%, samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu 26. júní 2016 að Bretland skyldi yfirgefa Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert