Mynduðu hundruð hótelgesta með leynd

Földum myndavélum er m.a. komið fyrir á salernum og í …
Földum myndavélum er m.a. komið fyrir á salernum og í fataklefum í Suður-Kóreu. Ljósmynd / Getty Images

Lögregla í Suður-Kóreu hefur handtekið fjóra karlmenn sem ákærðir eru fyrir að taka með leynd myndir af 1.600 hótelgestum og sem þeir seldu síðan á netinu.

Örsmáum myndavélum var m.a. komið fyrir í sjónvarpstækjum, festingum fyrir hárþurrkur og í innstungum fyrir rafmagnstæki og segir BBC mennina hafa hagnast um andvirði rúmra 700.000 kr. á uppátækinu.

Verði mennirnir fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsisdóm og allt að þriggja milljóna króna sekt.

BBC segir þá iðju að mynda með leynd kynlífsathafnir og nekt vera orðna að hálfgerðum faraldri í Suður-Kóreu og hefur m.a. leitt til mótmæla.

Að sögn lögreglu komu mennirnir myndavélum með 1 mm linsu fyrir á 30 hótelum í 10 borgum í landinu í ágúst í fyrra. Í nóvember komu þeir svo á fót vefsíðu þar sem notendur gátu ýmist horft á 30 sekúndna myndskeið ókeypis, eða greitt fyrir að horfa á myndskeiðið í heild sinni. Alls voru 803 myndbönd birt á vefsíðunni og fóru mennirnir fram hjá suður-kóreskum lögum með því að hafa vefþjóninn í öðru landi.

97 voru farnir að greiða fyrir aðild að vefnum þegar honum var lokað fyrr í þessum mánuði. Samkvæmt suður-kóreskum lögum er bannað að framleiða og dreifa klámefni og hafa gagnrýnendur sagt bannið eina helstu ástæðu vinsælda falinna myndavéla.

Fjölmörg slíkra myndbanda eru tekin upp með myndavélum sem faldar hafa verið á salernum og í fataklefum, auk þess sem hefndarklám fyrrverandi maka er líka algengt.

Rúmlega 5.400 manns voru handteknir árið 2017 fyrir að hafa komið falinni myndavél fyrir, en ekki nema 2% þeirra voru dæmd til fangavistar.

Reiði í garð þeirra sem slíkt gera hefur hins vegar farið vaxandi og aukinn þrýstingur á þyngri dóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert