Trump deilir við eiginmann Kellyanne

Donald Trump Bandaríkjaforseti með Kellyanne Conway, en hún er ein …
Donald Trump Bandaríkjaforseti með Kellyanne Conway, en hún er ein þeirra starfsmanna Hvíta hússins sem hann reiðir sig hvað mest á. Forsetinn er ekki jafn sáttur við eiginmann hennar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti á nú í deilum við eiginmann Kellyanne Conway, eins aðstoðarmanna sinna. Hefur Trump kallað George Conway, eiginmann Kellyanne, „eiginmann frá víti“, en því svaraði Conway til með því að endurtaka fyrri ásakanir um að Trump væri andlega vanhæfur til að sinna forsetastarfinu.

„Forsetinn virðist staðráðinn í að sanna orð mín,“ sagði Conway í samtali við Reuters vegna þessara nýjustu yfirlýsinga Trump á Twitter.

Reuters segir fáar deilur Trumps hafa vakið jafn miklar vangaveltur í Washington og deilur hans við Conway, lögfræðing sem sérhæfir sig í málshöfðunum.

Eiginkona hans Kellyanne Conway er hins vegar einn þeirra starfsmanna Hvíta hússins sem Trump reiðir sig hvað mest á, en hún tók virkan þátt í kosningabaráttu hans.

Trump skrifaði á Twitter að George Conway væri í fýlu af því að hann hefði ekki fengið embætti í stjórn Trump. Washington Post hefur hins vegar eftir Conway að hann hafi hafnað starfi sem honum hafi boðist í dómsmálaráðuneyti stjórnar Trumps.

Í morgun skrifaði Trump svo á Twitter: „George Conway, sem oft er talað um sem herra Kellyanne Conway af þeim sem þekkja hann er mjög afbrýðisamur út í velgengni konu sinnar og reiður yfir að ég, með hennar hjálp, lét hann ekki fá starfið sem hann þráði. Ég þekki hann varla, en horfið á hann. Þetta er algjör lúser og eiginmaður frá víti!“

Er fréttamenn spurðu Trump svo út í George Conway í dag sagðist forsetinn ekki þekkja hann. Hann væri þó klikkaður, á því léki enginn vafi. „Ég tel hann vinna dásamlegri eiginkonu sinni mikið tjón,“ sagði forsetinn.

Trump hefur látið Conway fara í taugarnar á sér frá því að hann gaf til kynna að forsetinn þjáðist af geðrænum kvillum. Gaf Conway m.a. í skyn að Trump væri haldinn sjálfsdýrkun og væri óhæfur til að gegna starfi forseta. Orðin lét Conway falla eftir Twitter-flaum forsetans nú um helgina er hann tjáði sig m.a. um þáttastjórnendur Fox-sjónvarpsstöðvarinnar og öldungadeildarþingmanninn heitinn, John McCain.

Í dag lét hann sér duga að birta stutt svar á Twitter við yfirlýsingum Trump. „Þú. Ert. Bilaður,“ sagði Conway í sinni færslu.

Kellyanne Conway hefur stutt forsetann í deilum hans við eiginmann hennar. „Hann [Trump] lét þetta viðgangast mánuðum saman í virðingarskyni við mig,“ sagði hún í samtali við Politico. „En finnst þér ekki að hann eigi að bregðast við þegar einhver, sem ekki er heilbrigðisstarfsmaður, sakar hann um að vera með geðsjúkdóm. Finnst þér að hann eigi bara að taka því?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert