„Ástandið var hræðilegt“

AFP

Mjög rólegt er yfir öllu í Christchurch eftir hryðjuverkaárásirnar segir Eggert Eyjólfsson, læknir á bráðamóttökunni á sjúkrahúsi borgarinnar. Hann segir að ástandið hafi verið hræðilegt fyrst eftir árásirnar en á tveimur tímum komu þangað 48 manns með alvarlega skotáverka. Á venjulegu ári koma þangað einn til tveir sjúklingar með alvarlega skotáverka en þarna voru það tæplega 50 manns á tveimur klukkutímum.

Eggert segir að það hafi gengið mjög vel að sinna fólkinu, en fyrstu komu þangað skömmu eftir árásina rétt fyrir klukkan 14. Þremur klukkutímum síðar var búið að útskrifa þá alla af bráðamóttökunni yfir á aðrar deildir. Enn eru um 30 þeirra á sjúkrahúsinu, þar af 9 enn á gjörgæslu. 

Eggert Eyjólfsson læknir.
Eggert Eyjólfsson læknir.

Allir þeir sem voru fluttir á sjúkrahús eru enn á lífi en einn var úrskurðaður látinn við komuna á bráðamóttökuna, segir Eggert.

Hann segir ástandið í borginni merkilega gott og mun minna að gera á bráðamóttökunni nú en venjulega. Þetta sé svipað því sem var í kjölfar jarðskjálftanna á sínum tíma og skýringin væntanlega sú að fólk heldur sig einfaldlega heima og er ekki á ferli að óþörfu.

Mikill samhugur er meðal fólks á Nýja-Sjálandi og greinilegt að margir annars staðar í heiminum hugsi til fólksins þar. Blómahaf sé í miðborg Christchurch og starfsmenn sjúkrahúsa um allan heim hafi haft samband við starfsfólk sjúkrahússins í Christchurch og sent því kveðjur. 

Lögreglan stendur vörð við sjúkrahúsið í Christchurch.
Lögreglan stendur vörð við sjúkrahúsið í Christchurch. AFP

Líkt og fram hefur komið á að herða vopnalöggjöf landsins og kynnti Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, þau áform í dag. Eggert segir að eftir hryðjuverkin hafi orðið mikil breyting á vopnaburði lögreglu en áður hafi nánast aldrei sést vopnuð lögregla í Christchurch. Nú séu þungvopnaðir lögreglumenn um allt. Þar á meðal við innganginn á sjúkrahúsinu. Hann segist ekki vita hversu lengi þetta ástand muni vara en lögreglumaður sem Eggert ræddi við í gær átti von á að lögreglan yrði við sjúkrahúsið í tvær til sex vikur.

„Ég vona að árásirnar verði ekki til þess að Christchurch breytist til hins verra því hér er gott að vera. Friðsæl og falleg borg þar sem fólk hefur búið í sátt og samlyndi,“ segir Eggert en hann starfaði á sjúkrahúsinu í Christchurch 2012 til 2015 og svo frá árinu 2017. 

28 ára ástralskur þjóðernisöfgamaður, sem skaut 50 manns til bana í moskum í Christchurch, var heltekinn af baráttu kristinna manna og múslima fyrr á öldum og honum var umhugað um að vekja aðdáun annarra þjóðernissinna á samfélagsmiðlum.

Blómahaf í miðborg Christchurch.
Blómahaf í miðborg Christchurch. AFP

Jacinda Ardern hefur hvatt þjóðir heims til að taka höndum saman í baráttu gegn því að öfgamenn geti notað samfélagsmiðla til að breiða út hatursáróður og hvetja til ofbeldis.

Ardern hvetur fólk til að nefna aldrei nafn hryðjuverkamannsins í Christchurch til að koma í veg fyrir að hann öðlist þá frægð sem hann þrái. „Hann er hryðjuverkamaður. Hann er glæpamaður. Hann er öfgamaður. En hann verður alltaf nafnlaus þegar ég tala.“

Eggert segir að á morgun muni Nýsjálendingar sameinast í tveggja mínútna þögn en þá er vika liðin frá hryðjuverkunum. Stefnt er að því að opna moskurnar tvær, Al-Noor og Linwood, á morgun fyrir almenningi.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern.
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert