Grafinn lifandi í 62 tíma

AFP

Björgunarsveitir náðu að bjarga indverskum manni undan húsarústum í dag 62 klukkustundum eftir að húsið hrundi. Að minnsta kosti 17 létust þegar fimm hæða bygging hrundi í Karnataka-ríki fyrir fjórum dögum. Enn er leitað í rústunum en talið er að tíu hið minnsta séu grafnir þar undir.

Slökkviliðsstjóri Karnataka, M N Reddi, tók myndskeið af björguninni og þar sjást á annan tug björgunarmanna fagna þegar þeir náðu manninum undan brakinu. Engir áverkar voru sjáanlegir á manninum sem afþakkaði börur og gekk sjálfur að sjúkrabílnum sem flutti hann með hraði á sjúkrahús. 

Tekist hefur að bjarga 54 úr rústunum en um 400 manns taka þátt í björgunaraðgerðunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert